13.6.2012 21:15:00
Eiríkur Örn Norðdahl hlaut Íslensku þýðingarverðlaunin
23.4.2008
Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, veitti í dag Eiríki Erni Norðdahl Íslensku þýðingarverðlaunin við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini. Eiríkur Örn er staddur í New York en móðir hans, Herdís M. Hübner, tók við verðlaununum fyrir hans hönd.
Hér má lesa erindi Silju Aðalsteinsdóttur, formanns dómnefndar.
Ávarp Silju Aðalsteinsdóttur, formanns dómnefndar:
Íslensku þýðingarverðlaunin í ár fær Eiríkur Örn Norðdahl fyrir bandarísku skáldsöguna Móðurlausa Brooklyn eftir Jonathan Lethem sem Bjartur gaf út sumarið 2007.
Móðurlaus Brooklyn gerist í New York á 9. áratug 20. aldar. Söguhetja og sögumaður er munaðarleysingi sem ekkert veit um ætt sína og uppruna, alinn upp á munaðarleysingjahæli í stórborginni. Á unglingsaldri er hann ásamt þremur hælisbræðrum sínum ráðinn í íhlaupavinnu hjá smábissnissmanninum Frank Minna. Minna er vafasamur náungi og bissnissinn sem hann notar drengina í er það sömuleiðis, en hann verður eins konar móðir þessara móðurlausu drengja, og þegar hann er drepinn leggur sögumaður allt í sölurnar til að finna morðingja hans.
Það sem gerir þetta skáldrit óvenjulegt – og óvenjuerfitt í þýðingu – er maðurinn sem talar. Hann er með tourette-áráttuhegðun sem einkum kemur fram í máli hans. Hann heitir Lionel Essrog – “Vælir Hestrok. Bælir Festrokk. Sænál Pisspott. Og þar fram eftir götunum,” eins og hann segir. En í sögunni verður tourettið hæfileiki fremur en böl vegna þess hvað höfundur notar það á skapandi hátt. Málsnið einstaklinga með tourette er ekki hægt að þýða, það verður að endurskapa á nýja tungumálinu, og þetta gerir Eiríkur Örn af skáldlegri fimi. Hér er annað dæmi:
Þegar ég sá BRAINUM-skiltið byrjaði hugur minn strax að para saman heila skrúðgöngu af trúðslegum hugmyndum. Ég mundi eftir því að hafa misheyrt nafnið á Barnum & Bailey-sirkusnum. Barnamum Bailey. Eins og helíum, brainium, Barnamum, kardimomma, hvarermamma: lotukerfi frumefnanna, þungmálmarnir. Barnamun Bailey gæti líka verið eldri bróðir Georgs og Éttu mig Bailey. Eða voru þeir kannski allir sami gaurinn? Ekki núna, ég grátbað Tourette-árátturnar að láta mig í friði. Hugsum um þetta seinna.
Skapandi þýðing af þessu tagi er í rauninni hliðstæð höfundskap. Og Eiríkur Örn gerir meira. Hann skapar trúverðugt götumál amerísku munaðarleysingjanna á íslensku, skilar sem sagt ekki aðeins inntaki bókarinnar heldur líka áferð hennar og stíl. Hann flytur höfundarverk Lethems yfir á íslensku svo ekki hattar fyrir.
Dómnefndin vill að auki nefna sérstaklega þýðingarafrek Friðriks Rafnssonar sem nú hefur snúið öllum skáldsögum Milans Kundera á íslensku, auk ritgerða hans um bókmenntir. Það er dýrmætt fyrir íslenska lesendur að fá að fylgjast með jafnmikilvægum erlendum höfundi og Kundera, nánast samstiga lesendum hans á frummálinu. Í rauninni ætti að veita sérstaka viðurkenningu fyrir slíka vinnu.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|