1.10.2014 17:54:00
Þýðendadagur og þýðingakökur

Bandalag þýðenda og túlka fagnaði 10 ára afmælinu 30. september, á alþjóðlegum degi þýðenda með góðum gestum og velunnurum á fjölmennu málþingi í Iðnó. Erindi héldu Pétur Gunnarsson rithöfundur, Guðrún Þórhallsdóttir, dósent í íslenskum, Sigrún Þorgeirsdóttir, ritstjóri hjá þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins, Paul Richardson, formaður Félags löggiltra skjalaþýðenda og dómtúlka og Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, þýðandi og doktorsnemi í þýðingafræði og var gerður góður rómur að máli þeirra enda erindin bæði fróðleg og skemmtileg. Bæklingnum „Þýðingar – góðar og gildar“ var dreift til gesta og boðið upp á „þýðingakökur“ innblásnar af kínverskum spádómskökum með rammíslenskum þýðingum af ýmsu tagi. Hér á eftir er upptalning á þeim og hvaðan þær koma.

Bandalang þýðenda og túlka þakkar kærlega öllum þeim sem hjálpuðu okkur að gera daginn eftirminnilegan.

Tilvitnanir í þýðingakökum:
 
að deyja  
er leið þín út
Úr ljóði eftir Tadeusz Rozenwitch, þýð. Geirlaugur Magnússon.

Að týna hreinlega hönskunum sínum
er heppni á móti því
að týna öðrum og henda hinum
en heimta þann týnda á ný.
Trøste-gruk, höf. Piet Hein, þýð. Magnús Ásgeirsson.

Aðaleinkenni mannsins – sá eiginleikinn, sem greinir hann frá öðrum tegundum dýra – er eflaust málfærið.                     
Mannfræði, höf. R.R. Marett, þýð. Guðmundur Finnbogason

„Af púðurreyk verða allir svartir,“ svaraði skólakennarinn, og skildi sneiðina.
Sögur herlæknisins, höf. Zacharias Topelius, þýð. Matthías Jochumsson.

„Afi þinn var rugludallur,“ sagði refurinn.
Lilli klifurmús og hin dýrin í Hálsaskógi, höf. Thorbjörn Egner, þýð. Helga Valtýsdóttir.

Aldrei er frjótt að taka tillit til viðtakandans andspænis listaverki eða listformi sem leitast er við að skilja.
Verkefni þýðandans, höf. Walter Benjamin, þýð. Ástráður Eysteinsson.

Á því andartaki skildi hann að enginn kærði sig um að nota skynsemina. Fólk vildi fá að vera í friði.
Mæling heimsins, höf. Daniel Kehlmann, þýð. Elísa Björg Þorsteinsdóttir.

Borgin er jafnvel ennþá dýrmætari en listaverkið þar eð hún er staðsett á mótum náttúru og tilbúnings.
Regnskógabeltið raunamædda, höf. Claude Lévi-Strauss, þýð. Pétur Gunnarsson.

Dagur reiði, dagur bræði
drekkir jörð með logaflæði,
votta heilög Völufræði.                    
Dies Irae, höf. Thomas frá Celano / Matthías Jochumsson.

Dunar í trjálundi, dimm þjóta ský,
döpur situr smámeyja hvamminum í.
Meyjargrátur, höf. Friedrich Schiller, þýð. Jónas Hallgrímsson.

Ef einhver skyldi spyrja um mig, þá fór ég frá
til fanganna með ölmusur að deila þeim.
Tartuff , höf. Molière, þýð. Karl Guðmundsson.

Ef lestin fer til hægri, þá er það Serbía, en Rússland, ef hún fer til vinstri.
Góði dátinn Svejk, höf. Jaroslav Hasek, þýð. Karl Ísfeld.

„En hvað það er gaman að vera bara einn í öllum heiminum,“ hugsar Palli með sér.
Palli var einn í heiminum, höf. Jens Sigsgaard, þýð. Vilbergur Júlíusson.

En hvað þegar lostanum væri fullnægt? Þegar hann væri ekki spennandi lengur?
Vorfórn (úr ritröðinni um Ísfólkið), höf. Margit Sandemo, þýð. Ingibjörg Jónsdóttir

En í tímans rás tekur ein þýðing við af annarri og svo koll af kolli og stundum eru þær gerólíkar.
Þýðingar, endurritun og hagræðing bókmenntaarfsins, höf. André Lefevere, þýð. María Vigdís Kristjánsdóttir.

Ég er ekkert annað en veður og vindur, ég er hluti af stórhríðinni.
Vetrarundur í Múmíndal, höf. Tove Jansson, þýð. Steinunn Briem.

Ég er lítill, grænn hattur, og mér leiðist hérna í hattabúðinni. Viltu vera svo góður að kaupa mig?
Græni hatturinn, höf. Alice Williamsson, þýð. Vilbergur Júlíusson.

Ég er lótusblómið unga
sem ilmar af sæld
og teygar af ljóssins lindum.            
Ljóð frá Egyptalandi, höf. óþekktur, þýð. Helgi Hálfdanarson

Gaman þykir ykkur að semja lög, en þó enn skemmtilegra að brjóta þau.
Spámaðurinn, höf. Kahlil Gibran, þýð. Gunnar Dal.

Hann óskar ekki eftir yfirheyrslum, þefdýrum, endalausum spurningum.
Dómarinn og böðull hans, höf. Friedrich Dürrenmatt, þýð. Unnur Eiríksdóttir.

Hefurðu nokkurntíma vitað annan eins forhertan þorskhaus á allri þinni guðsgrænni ævi?
Snabbi. Kaflar úr ævisögu fjáraflamanns, höf. P.G. Wodehouse, þýð. Páll Skúlason.

Hestur úti í húmi!
Hér er barn í rúmi
sveipað silki og ull.                             
Brot úr Vögguþulu úr söngleiknum Blóðbrullaup, höf.  Fredrico García Lorca, þýð. Magnús Ásgeirsson.

Hugur af hug
tendrast dáðum og dug,
því að hraustir menn
hlýða hreystikallinu enn.
"Stout Hearted Men" eftir Sigmund Romberg, þýð./höf. texta Jakob Jóhannesson Smári.

„Hvaða vitleysa,“ sagði Uggi. „Þið stelpurnar finnið alltaf upp á einhverju leiðindapexi.“
Alfinnur álfakóngur, höf. G.Th. Rotman, þýð. Árni Óla.

Hverjum þeim, sem ekki hafði tungutak eyjarskeggja, var útskúfað frá öllu samneyti við þá.
Endurminningar II – Undir berum himni , höf. Martin Andersen Nexö, þýð. Björn Franzson.

Í menningu Vesturlanda hefur forneskjan verið á undanhaldi árþúsundum saman.
Mennt og máttur, höf. Max Weber, þýð. Helgi Skúli Kjartansson.

Kveikið blys, komið með fílabeinsborðin og jaspisborðin. Loftið hér er dásamlegt.
Salóme, höf. Oscar Wilde, þýð.Sigurður Einarsson.

Líkaminn þreytist við áreynslu, en andinn fjörgast og hressist þegar honum er beitt.
Um ellina, höf. Marcús Túllíús Cíceró, þýð. Kjartan Ragnars.

Maður fer létt með að vera venjuleg manneskja fram yfir þrítugt.
Það var ekki ég, höf. Kristof Magnusson, þýð. Bjarni Jónsson.

Maturinn kitlar munnvatnskirtlana.
Viltu vinna milljarð?, höf. Vikas Swarup, þýð. Helga Þórarinsdóttir.

Mér hefir ævinlega þótt vænt um menn, sem eru þannig að allir aðrir menn hræðast nafn þeirra!
Kapitóla, höf. E.D.E.N. Southworth, þýð. Eggert Jóhannsson.

Móðir mín er fiskur.
Sem ég lá fyrir dauðanum , höf. William Faulkner, þýð. Rúnar Helgi Vignisson.

Nú sit ég fyrir sumrinu, strákar.
Úr Sálmur á vori, höf. Bertolt Brecht, þýð. Þorsteinn Þorsteinsson.

Nær skal þeyst til þings á ný
við þrumur, regn og veðragný?
Macbeth, höf, Shakespeare, þýð. Helgi Hálfdanarson.

„Oft hef ég séð ketti án glotts,“ hugsaði hún, „en aldrei fyrri glott án kattar.“
Lísa í Undralandi, höf. Lewis Carroll, óþekktur þýðandi.

Og svo er það vissast að vera hvergi nærri, þegar gapuxarnir fara að kyrja, hugsaði hann.
Pipp á skólaferðalagi, höf. Sid Roland, þýð. Jónína Steinþórsdóttir.

Römm er sú taug,
er rekka dregur
föðurtúna til.
Úr einu af ljóðabréfum Óvíðs, þýð. Sveinbjörn Egilsson.

Sannleikurinn knýr á dyr og maður segir „Farðu burt, ég er að leita sannleikans,“ og hann snautar burt.
Zen og listin að viðhalda vélhjólum. Rannsókn á lífsgildum, höf. Robert M. Pirsig, þýð. Sigurður A. Magnússon.

Satan hafði illa misreiknað sig á honum.
Babbitt, höf. Sinclair Lewis, þýð. Sigurður Einarsson.

Staðurinn hefur aðeins þessi áhrif á þig, af því að hann er forn og sérkennilegur, fullur af leynistígum, díkjum og göngum!
Fimm á Smyglarahæð, höf. Enid Blyton, þýð. Kristmundur Bjarnason.

Við hvern glugga standa þrír skrifarar og einn iðnaðarfélagsstjóri, og iðnaðarfélagsstjórinn er verstur, því hann er skilningslaus.
Hans klaufi, höf. H.C. Andersen, þýð. Steingrímur Thorsteinsson.

Vorið góða, grænt og hlýtt,
græðir fjör um dalinn,
allt er nú sem orðið nýtt,
ærnar, kýr og smalinn.
Vorið góða, grænt og hlýtt, höf. Heinrich Heine, þýð. Jónas Hallgrímsson.

Ýmsir eru fiskarnir og allir blautir sem bleikjan, svaraði don Kíkóti.
Don Kíkóti, höf. Cervantes, þýð. Guðbergur Bergsson.

Það eru aðeins smámunir, sem ég skrifa um, og smámunir, sem ég skrifa. Hvernig gæti annað verið?
Grónar götur, höf. Knut Hamsun, þýð. Skúli Bjarkan.

Það eru almennilegir fjársjóðir ef hægt er að hafa þá í vasanum eða undir rúminu.
Virgill litli, höf. Ole Lund Kirkegaard, þýð. Þorvaldur Kristinsson.

Það eru ekki allir sem búa yfir hæfileikanum eða viljanum til að drepa, hann er að hluta til meðfæddur og að hluta til áunninn.
Brynhjarta, höf. Jo Nesbø, þýð. Bjarni Gunnarsson.

Það voru þrjár nætur fram að því að horn Mánagyðjunnar mundu ná saman og mynda hring.
Ummyndanir, höf. Óvíd, þýð. Kristján Árnason.

Það þarf tvo til að búa mann til og einn til að deyja. Þannig mun heimurinn enda.
Sem ég lá fyrir dauðanum , höf. William Faulkner, þýð. Rúnar Helgi Vignisson.

Þegar ég stóð með Eneasi uppi á virkisveggnum, og við horfðum á birtuna í síðasta sinn, kom upp ósætti milli okkar.
Kassandra, höf. Christa Wolf, þýð. Jórunn Sigurðardóttir.

Þegar ég veit af eiturslöngu í nálægð, þá bý ég mig undir að vera við öllu búinn, ef hún skyldi ætla að bíta.
Eitraðir demantar (úr ritröðinni um Basil fursta), höf. Niels Gustav Meyn, þýð. ókunnur.                      

Þegar Jósep Montíel dó fanst öllum það mátuleg hefnd á hann, nema ekkjunni hans.
Af jarðarför Landsmóðurinnar gömlu, höf. Gabriel García Márquez, þýð. Þorgeir Þorgeirsson.

Þér skuluð taka aðrar veislur, og eyða fé yðra sjálfra og fara hverir til annarra að heimboðum.
Fyrsta og önnur bók af Homeri Odyssea. Þýð. Sveinbjörn Egilsson.

Þrælslundin saknar síðan svipunnar, stundum líka skildinganna …
Hreinsun, höf. Sofi Oksanen, þýð. Sigurður Karlsson.

Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.
Dýrin í Hálsaskógi, höf. Thorbjörn Egner, þýð. Hulda Valtýsdóttir.






Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]