27.4.2013 13:51:00
Þakkarávarp Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur
Forseti Íslands, kæru gestir.
Ég vil þakka fyrir heiðurinn og þá viðurkenningu sem Svarta sauðnum eftir Augusto Monterroso er veitt í dag. Það er mér mikið fagnaðarefni að þetta litla klassíska verk fái slíka viðurkenningu.
Svarti sauðurinn og aðrar fabúlur er tímalaust verk og á ekki síður erindi til okkar í dag en þegar það kom út í Mexíkó árið 1969. Monterroso hefur með fabúlum sínum endurvakið þetta gamla bókmenntaform, en með nýjum áherslum. Hér er ekki um að ræða hefðbundnar fabúlur eða dæmisögur með siðalærdómi í anda fyrri tíma. Monterroso umturnar eða grefur undan viðteknum siðferðilegum gildum og túlkun á sögunni. Með glettni, háði og tvíræðni að vopni ræðst hann gegn viðtekinni hugsun og varpar fram möguleikum á að endurmeta hefðbundin gildi og skoðanir á ýmsum málum, ekki síst hegðun okkar mannanna og skilning á bókmenntum, og starfi rithöfunda. Hann veitir okkur nýtt sjónarhorn þar sem munur manna og dýra er enginn, og jafnvel hluta eða óáþreifanlegra fyrirbæra. Fabúlur Monterrosos, sem nú á dögum flokkast undir örsögur, bjóða upp á margar túlkanir. Lesandinn veit ekki alltaf hvernig hann á að bregðast við þeim, hann verður dálítið óviss, ef til vill hissa, finnur jafnvel til óþæginda, hann brosir út í annað, finnst hann kannski samsekur eða heldur að hann sé komin í lið með „þeim góðu“, en er þó ekki alveg viss. Hér er fabúluhöfundurinn ekki í dómarasæti, hann beinir orðum sínum ekki síst að sjálfum sér.
Eins og margir vita geta þýðendur ekki verið án prófarkalesara. Ég vil færa Helga Grímssyni, sem ég tel einn besta prófarkalesara okkar, sérstakar þakkir fyrir yfirlestur hans og góðar ábendingar, hann hefur verið mér ómetanleg stoð frá því ég fór að sinna þýðingum. Einnig vil ég þakka Kristínu Svövu Tómasdóttur fyrir yfirferð hennar. Hún benti á margt sem létti stílinn og gerði hann áferðarfallegri. Sömuleiðis vil ég færa Ugga Jónssyni þakkir, en hann hefur ævinlega komið með góðar ábendingar og lausnir þegar ég hef leitað til hans. Svo vil ég þakka öllum sem lásu handritið; og auðvitað þeim sem næst mér stendur, Jóni Thoroddsen, sem hefur þurft að svara endalausum spurningum um hvort hitt eða þetta hljómi betur. Síðast en ekki síst (eins og sagt er) færi ég Guðrúnu Vilmundardóttur, útgáfustjóra Bjarts, einlægar þakkir fyrir að hafa haft trú á þessari bók og gefið hana út. Og svo vil ég þakka dómnefndinni fyrir að meta þá viðleitni mína að koma Monterroso yfir í íslenskt samfélag og menningu.
Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, er stuttorð í anda Monterros og vil segja að lokum: Kærar þakkir fyrir mig!
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|