15.2.2017 17:08:00
Þýðingaverðlaunaþakkarræða
Forseti Íslands, háttvirta dómnefnd, leikstjóri, Þjóðleikhússtjóri, kæru kollegar, vinir, fjölskylda, gestir.
(Þetta verður soldið löng ræða, ef þið væruð að horfa á hana á netinu þá væri hérna borði undir og í horninu hægra megin stæði talan 14.06.)
Ég hitti Shakespeare fyrst 15 ára gamall. Það var á fimmsýningu í Stjörnubíói. Polanski hafði gert mynd um Macbeth, hún hófst á senu með nornunum þremur.
When shall we three meet again
In thunder, lightning, or in rain?
Þessi upphafssena er enn það eina sem ég man úr þessari kvikmynd, hún var fyrsti kossinn. Nornirnar grófu afskorinn handlegg í jörð, helltu svo blóði yfir og skyrptu í kring.
Þær gróðursettu handlegg í sál mína. Hann var ansi lengi að vaxa en birtist loks úr jörðu og hóf að benda sínum fingri í átt að Shakespeare, ég fór að lesa verkin og fara á sýningar. Loks tók þessi hönd mig kverkataki og píndi mig til að vinna með Hamlet-verkið í skáldsögu. Og nokkru síðar bað Gísli Örn mig um að þýða Rómeó og Júlíu, og nú aftur Óþelló. Ég vil nota tækifærið til að þakka þeim öðlingi fyrir þessar tvær verkbeiðnir.
Oft hef ég óskað þess að það væru 18 mánuðir í árinu svo ég gæti á hverju ári eytt sex mánuðum með Shakespeare.
Hvað er svona merkilegt við hann? Ætli það sé ekki mennskan og mælskan, dansinn og dýptin, ljóðlistin og lífsmagnið. Sérhver lína er óvenjuleg, orginal og hlaðin slíkri orku að þýðandinn tekst á loft.
Aldrei prófaði ég kókaín en í ótal kvikmyndum hefur maður séð fólk sjúga það upp í nef sér í löngum hvítum línum og verða ógnarhresst á augabragði. Línurnar hans Shakespeares eru svartar en ekki hvítar en um leið og maður er búinn að hesthúsa eina er maður kominn í rétta standið til að takast á við þær næstu. Texti Shakespeares er skynörvandi og gefur akkúrat réttu vímuna sem þarf til að geta þýtt hann. Ef fólk vill prófa hugvíkkandi efni mæli ég með Shakespeare, það fylgir honum heldur engin þynnka.
En aðallykillinn að þessari miklu list liggur þó líklega í persónusköpuninni. Hamlet, Jagó, Ríkharður þriðji, Júlía, Rósalind, Lér konungur… allt er þetta 400 ára gamla fólk í fullu fjöri. Það þarf ekki annað en draga tjaldið frá og þau lifna við. Því öll eru þau svo mannleg. Jafnvel hin fullkomnustu illmenni eiga sínar efastundir, stundir sem standa okkur opnar. Með reglulegu millibili lætur Shakespeare persónur sínar tala við sjálfar sig, og það eru þessir innri mónólógar sem gera þær svo mennskar. Bandaríski bókmenntapáfinn Harold Bloom segir í bók sinni “The Invention of the Human” að Shakespeare hafi með þessu búið okkur til, gert okkur meðvituð um okkar eigin meðvitund, og það nokkrum öldum á undan Freud. Við heyrum karakterana jafnvel tala við sína eigin sál, og opnast þar bil á milli persónu og sálar, bil sem stendur okkur áhorfendum opið, við setjumst ekki aðeins inn í leikhúsið heldur inn í sjálfa persónuna á sviðinu.
Hér heyrum við til dæmis í Óþelló í upphafi 2. senu 5. þáttar, þar sem hann fetar sig inn í svefnherbergið hvar Desdemóna sefur í hjónarúmi og hann er harðákveðinn í að myrða hana, eða hvað…?
Já, þetta’er málið, þetta’er málið, sál mín –
sem ég mun ekki minnast á við ykkur,
skírlífu stjörnur. Þetta er þó málið.
Það er þessi endurtekning á óræðum frasa sem sýnir okkur hið innra hik, sem gerir karakterinn einmitt svo mannlegan.
Desdemóna hafði áður útskýrt ást sína á Óþelló, þessum framandi, þeldökka og nokkuð ógurlega stríðsmanni þannig:
Ég sá í sálu Óþellós hans andlit
Þetta er ekta Shakespeare. Óvenjuleg mynd en hyldjúp, og jafn ljómandi skýr og hún er opin til túlkunar.
Annar lykill að þessari miklu list er svo bandvíddin. Persónugalleríið er allt frá herskáum konungum yfir í ástsjúkar unglingsstúlkur, frá blótandi afturgöngum yfir í lífsþyrstustu róna sögunnar. Og allt þetta fólk talar ýmist fagurt eða ljótt, beinir sjónum til himna eða heljar, penni skáldsins flýgur úr ræsinu og upp á Ólympstind á augabragði.
Hér er heimurinn allur leiksvið og leiksviðið heimurinn allur.
Þriðji lykillinn gæti síðan verið sú staðreynd að megnið af þessum mergjaða texta var saminn til að vera leikinn utandyra. Ég er viss um að Guðni forseti og fleiri vita að maður hugsar ræðu á Austurvelli aðeins öðruvísi en þá sem flutt er í Hannesarholti. Setningarnar þurfa að þola veður og vind, vera ögn hraustlegri en ella. Línur Shakespeares eru haganleg blanda af slíkri vatnsheldri hreysti og viðkvæmri ljóðrænu. Við gætum kallað það innileika í útivistarfatnaði.
Hvernig er hægt að þýða þessa snilld? Bara svo það sé sagt: Þá er það ekki hægt. Maður er aldrei að vinna með bestu lausnina heldur þá skástu. Íslenska orðið er líka yfirleitt einu eða tveimur atkvæðum lengra en það enska. Hvernig fer maður þá að því að halda því öllu innan sömu línunnar? Hér er dæmi:
Keep up your bright swords, for the dew will rust them.
(Óþelló 1.2.61)
Þetta eru fimm bragliðir, tvö atkvæði hver. Seinni hluti línunnar eru til dæmis þrír bragliðir, sex orð, sem hvert og eitt er eitt atkvæði. For the dew will rust them. Þá byrjar vesenið, að halda þessu í þremur bragliðum. “Því þau munu ryðga dögginni í…” - 5 bragliðir. “Því döggin mun þau rjóða ryði…” - 4 bragliðir. “Því af dögg þau munu ryðga…” - líka 4 bragliðir.
Semsagt engin góð lausn, og þá er að leita þeirrar skástu.
Að þýða Shakespeare yfir á íslensku er stundum eins og að pakka fyrir flug með Wow Air. Taskan er alltaf of lítil og stundum neyðist maður til að taka tvö sokkapör með í tölvutöskuna. Stundum neyðist maður jafnvel til að kaupa aukatösku. Eins og reyndin varð hér: Ég neyddist til að flytja seinni hluta línunnar niður í þá næstu:
Nei, slíðrið sverðin ykkar, björt og beitt,
því döggin slær þau ryði…
(Óþelló, 1.2.59-60)
Það er ekki mikið vitað um William Shakespeare. Hann var ’64 módel, utan af landi, byrjaði sem leikari, kom svo suður og fór að skrifa, giftist ungur, átti þrjú börn, þar af eina tvíbura, og missti annan þeirra, varð þybbinn með árunum, eins og sést á líkneskinu í heimabænum hans, Stratford. Hann keypti sér stórhús þar fyrir öll ritlaunin, og dó í því árið 1616, 52 ára að aldri.
Þess vegna ákvað Þjóðleikhúsið að setja upp Óþelló, skáldið átti 400 ára dánarafmæli.
Jú og svo er vitað að í erfðaskránni erfði hann eiginkonu sína að “næstbesta rúminu” sínu, athugasemd sem hefur æ síðan verið fræðimönnum mikil ráðgáta. Kannski var hjónabandið búið?
Allavega segir þessi kjaftasaga frá 1602 frá því að í hléi á sýningu á Ríkharði þriðja hafi Sakespeare heyrt vin sinn, aðalleikarann Richard Burbage, lofa kvenkyns aðdáanda, sem mætt var baksviðs, að koma til hennar eftir sýningu. “Ég mun berja þrjú högg á hurð og þá veistu að Ríkharður þriðji er kominn,” sagði Burbage. Vilhjálmur Shakespeare ákvað hinsvegar að stríða vini sínum og varð fyrri til, fór til konunnar eftir sýningu, barði þrjú högg og var hleypt inn. Við vitum ekki hvernig henni varð við, en greinilega ekki illa, því þegar leikarann Richard Burbage bar að garði og barði sín þrjú högg, stakk skáldið hausnum út um glugga og kallaði: “Sorry, vinur minn, en Vilhjálmur sigurvegari ríkti á undan Ríkharði þriðja.”
Vilhjálmur sigurvegari. Sjálfstraust í góðu lagi.
Allavega hefur hann gert lítið annað síðustu aldirnar en að sigra, hjörtu okkar og hug.
Fyrir okkur sem trúum frekar á bókmenntir en guð er þessi alheimsandi sjálfur skáldskaparguðinn og verk hans hið eina sanna guðspjall. Því ólíkt Biblíunni virðist Shakespeare eiga svör við öllu, og ólíkt kirkjunni er alltaf gaman í messu hjá honum. Vatikan þessara skemmtilegu trúarbragða stendur svo á bökkum Thames-ár og heitir The Globe Theatre. Þar hef ég staðið í sól og regni, eins og sannur pílagrímur og alltaf komið heim með nýjan sannleik, nýjar línur, innblásinn, ánægður, en líka voða þreyttur í fótunum.
Við getum líka umgengist æviverk hans líkt og bókina helgu og slegið upp í henni á hverjum degi.
Hvað segir til dæmis Shakespeare um lauk?
And most dear actors, eat no onion or garlic, for we are to utter sweet breath.
Og kæru leikarar, engan lauk né hvítlauk, því framsögn okkar verður að ilma vel. (Draumur á Jónsmessunótt, 4.2.39-41)
Hvað segir hann um hár?
There’s many a man hath more hair than wit
Í mörgum haus er meira hár en hnyttni. (Comedy of Errors 2.2.81-2)
Og hvað segir þessi biblía okkur um rétt og rangt?
Að gera rangt er rétt ef enginn fréttir. (Óþelló, 3.3.208)
Þetta segir Jagó að sé mottó kvenna í Feneyjum, en í raun er þetta hans eigið mottó.
Ég vil svo nota tækifærið hér til að þakka tilnefndum kollegum mínum fyrir öll þeirra tungulöngu ferðalög, til Póllands, Frakklands, Suður-Ameríku og Fjársjóðseyjunnar. Það gerir mikið fyrir bækur að koma út á nýju tungumáli, að bæta við sig enn einu tungumálinu, en það gerir þó meira fyrir tungumál eins og okkar að fá að bæta við sig nokkrum heimsbókmenntaverkum.
Og svo langar mig loks til að þakka gengnum höfuðþýðanda. Ég vil þakka, ef hann leyfir, Helga Hálfdanarsyni fyrir að færa íslenskunni Shakespeare. Ja… þótt hans mikla verk verði reyndar seint fullþakkað langar mig allavega til að þakka honum kynnin og fyrir að hafa miðlað mér sinni visku. Ég var nefnilega svo heppinn að komast í nokkra tíma hjá meistaranum.
Fyrsti tíminn var stuttur, fór fram í bíl á Suðurlandsbraut, þegar ég ók honum heim af sýningu (einmitt á Ríkharði þriðja í Nemendaleikhúsinu þar sem Ólafur Egilsson fór með aðalhlutverkið af krypplingslegri prýði), en þarna kenndi hann mér mikilvægi þess að línur stakhendunnar eigi að vera sem fjölbreytilegastar hvað hrynjandi snertir, þótt þær haldi sig jafnan við bragliðina fimm. “Nú andar suðrið sæla vindum þýðum” er einfaldasta mynd stakhendunnar á íslensku, fimm tveggja atkvæða orð í röð. Slíkur reglugangur yrði þó heldur þunglamalegur og leiðigjarn til lengdar. Þess vegna er nauðsynlegt að byrja stundum á þrílið sem og nota jafnframt eins-atkvæðis orð. “Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr sem fer…”
Undir ævilok sín var Helgi rúmfastur en ég var þó svo heppinn að ná að skrifast á við hann og fræðast frekar um formið. Hann var ljúfur og auðmjúkur kennari, jafnvel þótt nemandinn væri stundum tregur, og boðinn og búinn fram á sinn síðasta dag. Mikilvægasta lexían frá honum var sú að stakhendulínan íslenska verður alltaf glæstari hefjist hún á eins atkvæðis orði, eða þrílið. “Nú andar suðrið sæla vindum þýðum” er svo miklu betra en: “Andar suðrið sæla vindum þýðum”. Þetta litla “nú” gerir gæfumuninn.
Að fá bréf frá Helga Hálfdanarsyni, vélritað fornlegum stöfum á gulnaðan pappír, var auðvitað alltaf svolítið eins og að fá símskeyti frá Snorra Sturlusyni.
Svo þakka ég aftur leikstjóra sem og Þjóðleikhússtjóra fyrir að kýla á þetta verkefni, sem og yfirlesurum mínum á Forlaginu, og skora svo á ykkur öll að fara og sjá og heyra Óþelló á sviði. Næsta sýning er annað kvöld!
Það er aldrei leiðinlegt í messu hjá þessum guði.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|