11.4.2016 22:21:00
Úrvals þýðendur og úrvals verk
Fimmtudaginn 14. apríl kl. 20 verður
haldið þýðendakvöld í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, 104 Reykjavík og kynntir þeir
fimm þýðendur og verk þeirra sem tilnefnd eru til Íslensku þýðingaverðlaunanna
í ár. Verkin eru að vanda fjölbreytt og ólík og tilnefndu þýðendurnir hafa ljúfmannlega
fallist á að spjalla við áheyrendur um verkin, starf sitt og glímuna við orðin.
Dagskrá verður sem hér segir:
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson: Nýsnævi – safn ljóðaþýðinga eftir 15
höfunda. (Útgefandi Dimma)
Nýsnævi hefur
að geyma þýðingar Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar á ljóðum fimmtán skálda frá
ellefu Evrópulöndum. Í bókinni gefur Aðalsteinn forvitnilega innsýn í verk
margra helstu ljóðskálda samtímans þar sem heilsteypt rödd þýðandans fylgir
lesandanum í ferð um hugarheima ólíkra höfunda.
Ásdís R. Magnúsdóttir: Rangan og réttan - Brúðkaup - Sumar – þrjú ritgerðarsöfn eftir
Albert Camus. (Útgefandi
Háskólaútgáfan)
Franski rithöfundurinn og
heimspekingurinn Albert Camus er eðlilega þekktastur fyrir skáldverk sín, en
til þess að fá fyllri mynd af skáldinu þarf að kynnast essayistanum og því er
það fengur að þessi þrjú ritgerðasöfn Camus komi út í íslenskri þýðingu. Þýðing
Ásdísar R. Magnúsdóttur er nákvæm og frumtextanum trú, en líka lifandi og
læsileg.
Brynja Cortes Andrésdóttir: Ef að vetrarnóttu ferðalangur eftir Italo
Calvino. (Útgefandi Ugla)
Ef að vetrarnóttu ferðalangur er póstmódernískt ævintýri þar sem Italo Calvino leikur sér
með lesandann og gerir hann að hetju í bók sem fjallar um lestur bóka, sem er
skáldskapur um skáldskapinn. Þýðing Brynju Cortes Andrésdóttur er leikandi og ljóðræn
og skilar afbragðsvel tærum og lifandi stíl Calvino.
Jón Hallur Stefánsson: Spámennirnir í Botnleysufirði eftir Kim Leine. (Útgefandi
Bókaútgáfan Sæmundur)
Í Spámönnunum
í Botnleysufirði fléttar Kim Leine saman skáldskap og sögulegu efni og
rekur þannig sögu Grænlands og Grænlendinga undir lok átjándu aldar og árekstrum
ólíkra menningarheima þar sem boðskapur kristinnar trúar verður innfæddum
kveikja að átökum við dönsku herraþjóðina. Kim Leine lýsir harkalegum heimi sem
er líka þrunginn hrikalegri fegurð og afbragðsþýðing Jóns Halls Stefánssonar
nær að fanga grimmdina og fegurðina í frásögninni.
Silja Aðalsteinsdóttir: Grimmsævintýri, Philip Pullman tók
saman og endursagði. (Útgefandi Mál
og menning)
Grimmsævintýri
eru hluti af evrópskum menningararfi og útgáfa breska rithöfundarins Philip
Pullmans færir ævintýrin nær uppruna sínum og um leið nær samtímanum með
beinskeyttu og nútímalegu málfari. Silja Aðalsteinsdóttir þýðir ævintýrin af
smekkvísi og beitir orðfæri sem er í senn einfalt og aðgengilegt en líka
kraftmikið og kryddað. Það eykur gildi útgáfunnar að Silja hefur víða skotið
inn skýringum sem tengja sagnaheiminn íslenskum ævintýrum.
Aðgangur er
ókeypis og öllum frjáls meðan húsrúm leyfir.
Til baka