29.4.2015 01:08:00
Guttormur J. Guttormsson – Ten plays/Tíu leikrit

Útgáfukynning og hóf í Lögbergi, st. 101, laugardaginn 2. maí kl. 16

 

Kind Publishing í Kanada hefur gefið út Ten Plays/Tíu leikrit eftir skáldið Guttorm J. Guttormsson í tvímála útgáfu á íslensku og ensku. Þessi bók kom fyrst út 1930 og hefur að geyma helstu leikrit skáldsins sem er meðal þeirra mikilvægustu sem rituðu á íslensku á Nýja-Íslandi í Kanada. Verkið hefur verið ófáanlegt á íslensku áratugum saman.

 

Nú gefst tækifæri til að lesa leikritin á íslensku og í nýrri enskri þýðingu eftir Christopher Crocker og Elin Thordarson sem einnig ritar eftirmála um Guttorm og verk hans. Vigdís Finnbogadóttir ritaði inngang að verkinu og Heather Ireland, barnabarn skáldsins, formála. Ritstjórar eru Birna Bjarnadóttir og Gauti Kristmannsson.

 

Góðir gestir verða á kynningunni, þau Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti, og Sveinn Einarsson, leikstjóri og fyrrum leikhússtjóri, en þau, að öðrum ólöstuðum, þekkja verk Guttorms betur en flestir aðrir og stóðu þau m.a. annars að vandaðri dagskrá um Guttorm með Vonarstrætisleikhúsinu sl. haust.

 

Að kynningu lokinni verður boðið upp á léttar veitingar þar sem færi gefst til að spjalla saman.





Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]