1.5.2016 14:10:00
Ræða Brynju Cortes Andrésdóttur
Herra forseti, ágætu gestir
Það er mér sannur heiður að taka við þessum verðlaunum hér í dag.
Ég áttaði mig ekki fyllilega á því hve mikill heiður þessu fylgir fyrr en ég sá hverjir aðrir voru tilnefndir til verðlaunanna í ár. Ég þakka kærlega fyrir mig.
Þýðingin sem hér er verðlaunuð ber hinn undarlega titil Ef að vetrarnóttu ferðalangur og fjallar um ferð lesandans um fjölbreytilegt landslag skáldskaparins. Þetta ferðalag lesandans er alltaf óvissuför, hann hættir sér ítrekað inn á ný og framandi svæði, les fjölbreytta texta, þýðingar frá ólíkum löndum í leit að einhverju sem hann veit ekki hvað er, skáldskapnum sjálfum líklega, sem afhjúpar sig í lestrinum; á ferðalaginu.
Kaflar bókarinnar eru ólíkir innbyrðis og þegar kom að því að þýða þá voru þeir miserfiðir viðureignar. Við fyrstu atrennu virtust sumir þættir bókarinnar raunar algerlega óþýðanlegir, en það voru oft þeir kaflar sem jafnframt var, er á reyndi, skemmtilegast að glíma við.
--
Allt frá því við lærum að tala er hugsun okkar bundin í tungumál,
Nautn þýðandans felst kannski að miklu leyti í að komast í tæri við hugsun eða hugmyndir á andartaki þegar þær virðast losna úr viðjum eins tungumáls á leið sinni yfir í annað tungumál. Þýski heimspekingurinn Walter Benjamin sagði að í þýðingum væri hægt að komast í snertingu við hreint tungumál, sem væri handan orðanna, handan allra tungumála. Þetta eru hugmyndir á mörkum þess dulspekilega; tengsl tákna og merkingar eru jú hverful í bókmenntum eins og öðrum listum og hinu óræða í textanum, Andanum, þarf að koma heilu og höldnu milli þessara vídda sem tungumálin eru.
Vitaskuld eru þýðingar þó ekki bara stundaðar þýðendunum sjálfum til skemmtunar. Íslendingar eru að vakna æ betur til vitundar um gildi góðra þýðinga ogumræða um þær hefur á undanförnum misserum aukist hér á landi. Einkum þá í sambandi við gott gengi íslenskra rithöfunda erlendis og erlendar þýðingar á íslenskum skáldverkum, sem ná þá lesendum á mun stærri málsvæðum en Íslandi með augljósum hag fyrir alla.
Þýðingar á erlendum verkum á íslenska tungu eru okkur þó ekki síður mikilvægar. Við erum lítið og óneitanlega einsleitt samfélag, landfræðilega einangrað og hættir því eðlilega til nokkurrar sjálfhverfu. Menning her á landi hefur þó alla tíð þrifist best í einhverskonar samræðu við erlenda menningu þótt oft hafi það þótt fínast og því verið haldið hæst á lofti sem virðist laust við erlend áhrif og vera alveg hreinræktað íslenskt. Enn eimir jafnvel eftir af þeim hugmyndum að það séu genin, víkingaeðlið og íslenska vatnið sem töfri fram okkar bestu verk á öllum sviðum mannlífs.
Sé litið á söguna sést vel að mestu blómaskeið menningar og lista í heiminum hafa orðið þegar menning mætir annarri menningu, í kjölfar þess að eitthvað framandi er flutt inn, og samlagast því sem fyrir er. Eins og bent hefur verið á fluttu Rómverjar inn gríska menningu og blönduðu sinni eigin, þýska rómantíkin blómstraði í kjölfar þýskra þýðinga á Hómer og Sófóklesi, og á síðustu áratugum hefur hér á Íslandi listalíf blómstrað eftir að einangrun okkar frá umheiminum var rofin. Tónlistarlífið fór að blómstra eftir að erlendir tónlistarmenn, margir hverjir flóttamenn frá stríðshrjáðri Evrópu, komu hingað til lands og höfðu með sér í farteskinu evrópskar hefðir og amerískar jazzplötur.
Þetta er enginn nýr sannleikur. Francesco Petrarca, sem oft er kallaður faðir endurreisnarinnar líkti eigin lestri á grískum og latneskum textum við starf býflugunnar, sem sveimar yfir blómagörðum nágranna sinna í leit að næringu, til að síðan fljúga södd aftur heim, melta safa blómanna og framleiða síðan úr honum sitt eigið hunang. Nýtt hunang. Með flugi sínu frjóvgaði flugan Petrarca líka blómagarða nágrannanna og hélt í þeim lífi.
Viljum við framleiða eitthvað nýtt þurfum við líka að halda í ferðalag, út í óvissuna, bragða eitthvað framandi. Annars er hætt við að við stöðnum, sitjum uppi með sama gamla hunangið ár eftir ár.
Takk fyrir.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|