17.7.2012 17:13:00
Atli, Erlingur, Njörður, Óskar Árni og Þórarinn Eldjárn

1.12.2010
- tilnefndir til Íslensku þýðingaverðlaunanna

Fimm þýðendur voru í dag tilnefndir til Íslensku þýðingaverðlaunanna. Þeir eru Atli Magnússon, Erlingur E. Halldórsson, Njörður P. Njarðvík, Óskar Árni Óskarsson og Þórarinn Eldjárn. Við óskum þeim öllum til hamingju!

Í dómnefnd um þýðingaverðlaunin 2011 sátu Kristján Árnason, sem hlaut verðlaunin 2010 fyrir Ummyndanir eftir Óvíd, Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir og Steinunn Inga Óttarsdóttir.

Umsögn dómnefndar:

Atli Magnússon
tilnefndur fyrir Silas Marner eftir George Eliot (Mary Ann Evans)
Bókafélagið Uglan

Atli Magnússon (1944) er mikilvirkur þýðandi. Hann hefur m.a. þýtt verk eftir Scott Fitzgerald, Josep Conrad, Thomas Hardy, Truman Capote og Johannes V. Jensen.
George Eliot, fædd Mary Ann Evans, er einn helsti skáldsagnahöfundur Englendinga á 19. öld. Lýsingar hennar á ensku sveitalífi einkennast af raunsæi og spegla um leið umbrot tímans. Þýðing Atla á Silas Marner hefur ekki verið áhlaupaverk. Stíllinn er víða þungur og tyrfinn, setningar eru langar og víða innskot og undirskipaðar setningar. Í þýðingunni ríkir trúverðug 19. aldar stemning, stéttaskiptingu og mismunun eru gerð góð skil og þýðingin er á fallegu og virðulegu máli sem hæfir bæði efni, sögusviði og tíma sögunnar.

Erlingur E. Halldórsson
Tilnefndur fyrir Guðdómlega gleðileikinn eftir Dante Alighieri
Mál og menning

Erlingur E. Halldórsson (f. 1930) fékkst fyrr á árum einkum við leikstjórn og leikritagerð en hefur í seinni tíð snúið sér æ meir að þýðingum sígildra meistaraverka frá fornöld og miðöldum og sent frá sér þýðingar á verkum eftir höfunda á borð við Rabelais, Petróníus, Apúleius, Boccaccio og Chaucer. Fyrir þýðingu sína á Rabelais hlaut hann heiðursverðlaun frönsku Akademíunnar árið 1993.
Nú hefur þýðing hans á Gleðileik Dantes bæst í hópinn, og er það mikill fengur og fagnaðarefni íslenskum lesendum að eignast loks þetta öndvegisverk vestrænna bókmennta á íslensku í heild sinni. Verkið leiðir lesandann inn í hugarheim miðalda og lýsir leiðsluferð skáldsins um handanheima þar sem birtast ýmis stig mannlegrar reynslu, allt neðan frá dýpsta víti illsku og kvala og til uppheima ljóss og sælu. Á frummálinu er Gleðileikurinn kveðinn undir svonefndum tersínahætti með þríteknu rími sem knýr frásögnina áfram, en lausamálsþýðing Erlings nær þó á sinn hátt með kjarnmiklu orðfæri að gera ferðalýsinguna ljóslifandi og koma til skila þeim lærdómi sem af henni má draga.

Njörður P. Njarðvík
tilnefndur fyrir Vetrarbraut eftir Kjell Espmark.
Uppheimar

Njörður P. Njarðvík (f.1936) er prófessor emeritus við Háskóla Íslands og hefur starfað sem rithöfundur um langt skeið. Hann hefur m.a. þýtt verk eftir Edith Södergran, Antti Tuuri og Tomas Tranströmer og hlaut verðlaun sænsku Akademíunnar fyrir að kynna sænska menningu árið 2000.
Kjeld Espmark er skáld og prófessor emeritus í bókmenntafræði við Háskólann í Stokkhólmi. Hann hefur bæði skrifað fræðirit og skáldverk og hlotið viðurkenningu fyrir skáldskap sinn, þ.á m. Tomas Tranströmer-verðlaunin en þar vó Vetrarbraut þungt. Í áliti dómnefndar segir að þar hafi Espmark með „orfeískri þrjósku og tilfinningaríku hugmyndaflugi sungið til baka þá sem sagan útrýmdi og valdið drap – í lýrískum ljóðum um endurskin kærleika og dauða.“ Þýðing Njarðar fangar vel lýríkina, jafnt í grimmd og fegurð ljóðanna.

Óskar Árni Óskarsson
Tilnefndur fyrir Kaffihús tregans eftir Carson McCullers
Bjartur

Óskar Árni Óskarsson (f. 1950) er bæði skáld og þýðandi og jafnvígur á japanskar hækur og sögur eftir William Saroyan, James Joyce, Raymond Carver og Oscar Wilde. Hann var tilnefndur til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2008 fyrir skáldsögu sína, Skuggamyndir úr ferðalagi.
Carson McCullers, fædd Lula Carson Smith árið 1917, var meðal fremstu höfunda Bandaríkjanna á 20. öld. Hún hefur skrifað sögur, ort ljóð og samið tvö leikrit. Lengi stríddi hún við heilsuleysi og lést fimmtug að aldri árið 1967.
Kaffihús tregans kom fyrst út í tímaritinu Harpers Bazaar árið 1943. Eins og titillinn bendir til er sagan dapurleg og sagt hefur verið að fáir hafi túlkað einmanaleika, þráhyggju og afbrýði af viðlíka listfengi og McCullers. Sagan gerist í Suðurríkjunum við sérkennilegar aðstæður og eru aðalpersónur að sama skapi sérstakar og ná illa saman. Stíllinn einkennist í senn af léttleika og kaldhæðni, og njóta þessi einkenni sín vel í þýðingunni.

Þórarinn Eldjárn
Tilnefndur fyrir Lé konung eftir William Shakespeare
Vaka Helgafell

Þórarinn Eldjárn (f. 1949) á að baki langan og fjölbreytilegan rithöfundarferil þar sem skiptast á sögur og ljóð fyrir unga sem aldna, jafnt í hefðbundnu formi sem frjálsu og jafnt á léttum nótum sem þjóðlegum. Hann hefur einnig fengist við þýðingar á skáldsögum, söngljóðum og sviðsverkum.
Nú færist hann mikið í fang með að þýða Lé konung eftir Shakespeare sem er eitt stórbrotnasta og áhrifamesta verk meistarans og nær til ystu marka mannlegs harms og þjáningar. Texti verksins er, eins og í öðrum verkum Shakespeares, blæbrigðaríkur og er að mestu leyti ortur undir svonefndri stakhendu (blank-verse), en einnig bregður bæði fyrir lausamálsköflum og stöku rímuðum vísum. Þróttur og dirfska einkenna þýðingu Þórarins öðru fremur, og ber hún þess merki að vera gerð fyrir leiksvið þar sem miklu skiptir að tilsvörin séu í senn mergjuð og beinskeytt.

Í dómnefnd um þýðingaverðlaunin 2010 sátu Kristján Árnason, sem hlaut verðlaunin 2009 fyrir Ummyndanir eftir Óvíd, Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir og Steinunn Inga Óttarsdóttir.



Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]