18.6.2012 19:39:00
Handjárn á blómin. Vangaveltur um leikritaþýðingar

Þýðing öndvegisverka
Sigurður Pálsson, skáld og þýðandi: Handjárn á blómin. Vangaveltur um leikritaþýðingar.
Miðvikudaginn 25. febrúar kl.  16:30 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins


Sigurður Pálsson mun fjalla um þýðingu sína á leikritinu … og þeir settu handjárn á blómin eftir Fernando Arrabal. Hann mun einnig víkja að öðrum leikritum sem hann hefur þýtt, einkum Svölunum eftir Jean Genet, ásamt almennum vangaveltum um þýðingastarfið.

Á 35 ára ferli sem þýðandi hefur Sigurður þýtt bæði ljóð, skáldsögur, ritgerðir og leikrit. Fyrsta verkið sem hann þýddi var einmitt leikritið …og þeir settu handjárn á blómin. Leikritið fjallar um minningar, drauma og hugrenningar pólitískra fanga á Spáni, en höfundurinn sat þar sjálfur um tíma í fangelsi af pólitískum ástæðum.

Í erindi sínu ræðir Sigurður fyrst og fremst um þýðingarvinnuna við þetta verk en hann mun einnig velta fyrir sér þýðingastarfinu almennt, t.d.hvort hægt sé að læra af reynslunni og þá hvernig, þegar ljóst er að hverjum texta fylgja algjörlega ný vandamál. Hann mun þó helst dvelja við sértæk vandamál sem upp koma í leikritaþýðingum.

Auk þess að vera eitt þekktasta skáld þjóðarinnar, hefur Sigurður þýtt yfir 20 verk úr frönsku og tvö leikrit eftir Arthur Miller. Ljóð hans hafa birst í þýðingum á 10 mismunandi tungumálum, s.s. búlgörsku, ítölsku, spænsku og frönsku. Sigurður nam leikhúsfræði og bókmenntir í Sorbonne og lauk einnig prófi frá CLCF kvikmyndaskólanum. Hann hefur hlotið fjöldamörg verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín, s.s. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2007 og Riddarakross Frönsku Heiðursorðunnar sama ár.

Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni ‘þýðing öndvegisverka’ þar sem áheyrendum er gert kleift að skyggnast inn í heim þýðandans. Fyrirlestraröðin er haldin á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og hafa margir af þekktustu þýðendum þjóðarinnar tekið þátt í henni. Að þessu sinni var ákveðið að leggja sérstaka áherslu á leikritaþýðingar.

Allir velkomnir!




Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]