13.6.2012 19:30:00
Gengið í Barndóm, vikið að Vansæmd

Rúnar Helgi Vignisson talar um öndvegisþýðingar

Fyrirlestraröðin Öndvegisþýðingar heldur áfram á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Fimmtudaginn 8. mars kl. 16:30 heldur Rúnar Helgi Vignisson, rithöfundur og þýðandi, fyrirlestur um þýðingar sínar á verkum suður-afríska Nóbelsverðlaunahöfundarins J.M. Coetzee. Þar mun hann ræða um glímuna við bókmenntaverk frá fjarlægum og framandi menningarheimi. Hann veltir fyrir sér sambandi íslenskrar menningar við framandi menningu og þeim gildrum sem framandleikinn getur lagt fyrir þýðandann. Í leiðinni reynir hann að skilgreina kröfurnar sem gerðar eru til þýðingar hérlendis og forsendurnar sem þar eru lagðar til grundvallar. Hann spyr sig hvaða aðferðum þýðandi getur beitt til þess að brúa bilið milli ólíkra textaheima og heldur því fram að samstarf við höfundinn sé ein leiðin til þess. Í fyrirlestrinum gerir hann grein fyrir samstarfi sínu við Coetzee og ræðir álitamál sem upp komu við þýðingarvinnuna. Undir fyrirlestrinum mun Rúnar m.a. sýna myndir úr ferð sinni til Höfðarborgar.

Rúnar Helgi Vignisson er fæddur árið 1959 á Ísafirði. Hann gaf út sína fyrstu bók, skáldsöguna Ekkert slor, árið 1984 og hefur síðan sent frá sér fimm skáldverk til viðbótar auk fjölda þýðinga á verkum þekktra samtímahöfunda á borð við Amy Tan, Philip Roth og Ian McEwan. Hann var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir skáldsöguna Nautnastuld árið 1990, til menningarverðlauna DV fyrir þýðinguna á Friðþægingu eftir Ian McEwan og hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir Barndóm eftir J.M. Coetzee í fyrra.

Ennfremur var hann valinn bæjarlistamaður í Garðabæ 2006.

Fyrirlestur Rúnars Helga fer fram í Lögbergi, einni af byggingum Háskóla Íslands, og hefst eins og áður segir kl. 16:30. Allir eru velkomnir.



Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]