10.6.2015 12:51:00
Aðalfundur og ný stjórn

Aðalfundur Bandalags þýðenda og túlka árið 2015 var haldinn 9. júní sl. Í nýrri stjórn og varastjórn sitja, auk Magneu J. Matthíasdóttur formanns, Jóhann R. Kristjánsson, Marion Lerner, Guðrún C. Emilsdóttir, Birna Imsland, Kristín Vilhjálmsdóttir og Katrín Harðardóttir, en Petrína Rós Karlsdóttir, sem starfað hefur vel og lengi í stjórn gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Fjárhagur félagsins er í þokkalegu jafnvægi og þótti ekki ástæða til breytinga á félagsgjaldi, þrátt fyrir stór verkefni á síðasta starfsári. Bandalagið stóð meðal annars fyrir veglegri hátíð á 10 ára afmæli sínu í september og hélt utan um samnorrænan þýðendafund í sumarbyrjun. Mánaðarlegir spjallfundir voru haldnir í vetur þar sem staðan var tekin á ýmsum málum sem brenna á þýðendum og túlkum. Fastur liður er svo þýðingaverðlaunin, sem afhent voru á Degi bókarinnar en í ár bar sumardaginn fyrsta upp á þann dag. Einnig kom félagið að veitingu Ísnálarinnar, en hún er verðlaun Iceland Noir glæpasagnahátíðarinnar fyrir bestu þýddu glæpasöguna.

Umsókn Félags háskólamenntaðra ráðstefnutúlka, sem stofnað var í vetur, um aðild að Bandalaginu var samþykkt einróma. Lögum Bandalagsins var breytt til samræmis. Félagið er skipað háskólamenntuðum ráðstefnutúlkum sem hafa íslensku að vinnumáli, en Háskóli Íslands bauð í fyrsta sinn meistaranám og diplómanám á meistarastigi í ráðstefnutúlkun haustið 2011.

Stjórnin þakkar félögunum samstarfið síðastliðinn vetur og hlakkar til næsta starfsárs, sem vonandi verður jafn gjöfult.



Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]