13.6.2012 19:56:00
Silja hreppti Íslensku þýðingaverðlaunin

Íslensku þýðingaverðlaunin voru veitt í þriðja sinn á Gljúfrasteini í dag. Í þetta skipti komu þau í hlut Silju Aðalsteinsdóttur fyrir framúrskarandi þýðingu á bókinni Wuthering Heights eftir Emily Brontë sem bókaforlagið Bjartur gaf út. Það var forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, sem afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í dag.

Dómnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Silja Aðalsteinsdóttir skyldi hljóta Íslensku þýðingaverðlaunin árið 2007 fyrir að vekja Wuthering Heights til lífs á ný í íslenskum samtíma.

Íslensku þýðingaverðlaunin voru veitt í þriðja sinn á Gljúfrasteini í dag. Í þetta skipti komu verðlaunin í hlut Silju Aðalsteinsdóttur fyrir framúrskarandi þýðingu á bókinni Wuthering Heights eftir Emily Brontë sem bókaforlagið Bjartur gaf út. Það var forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, sem afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í dag.

Aðrir sem tilnefndir voru til verðlaunanna að þessu sinni eru Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson fyrir Umskiptin eftir Franz Kafka, Fríða Björk Ingvarsdóttir fyrir Dætur hússins eftir Michele Roberts, Kristian Guttesen fyrir Brekkuna eftir Carl Frode Tiller og Atli Magnússon fyrir Nostromo eftir Joseph Conrad.

Dómnefndarálitið er svohljóðandi:

Með þýðingu sinni á Wuthering Heights eftir Emily Brontë hefur Silju Aðalsteinsdóttur tekist að flytja skáldverk frá miðri 19. öld yfir á trúverðugt nútímamál og auðvelda þannig aðgengi yngri kynslóða að þessu sígilda verki.

Wuthering Heights er átakamikil og margradda ástarsaga sem gerist í sveitum Englands í upphafi 19. aldar. Í áreynslulausum texta, sem tekur mið af tungutaki okkar samtíma, nær Silja að koma hrjáðum röddum og lynggrónum vindheimum afar vel til skila. Þýðing hennar er á auðugu og blæbrigðaríku máli, heldur tryggð við frumtextann eins og kostur er og vitnar í leiðinni um hugkvæmni og listfengi þýðanda sem er samgróinn íslenskri tungu eftir áratuga starf á menningarakrinum.

Dómnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Silja Aðalsteinsdóttir skuli hljóta Íslensku þýðingaverðlaunin árið 2007 fyrir að vekja Wuthering Heights til lífs á ný í íslenskum samtíma.

Rúnar Helgi Vignisson, formaður, Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Jórunn Sigurðardóttir.





Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]