13.6.2012 19:42:00
Sigurður A. fjallar um Ódysseif
Fimmtudaginn 22. mars kl. 16:30 flytur Siguður A. Magnússon, rithöfundur og þýðandi, fyrirlestur í fyirlestraröðinni um þýðingar öndvegisverka sem Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur hefur staðið fyrir í vetur. Erindið fjallar að hluta til um þýðingar Sigurðar á þremur öndvegisverkum eftir James Joyce, Í Dyflinni, Æskumynd listamannsins og Ódysseifi (Ulysses), en megininntak þess er baráttan við að snúa Ulysses á læsilega íslensku. Þetta mikla verk hefur verið kallað fjölþættasta og fyndnasta skáldverk síðustu aldar, enda hefur ekkert verk heimsbókmenntanna hlotið eins víðtæka umfjöllun. Árið 1992 gerðist það í fyrsta sinn að William Shakespeare vék fyrir yngri keppinauti: James Joyce var kominn í efsta sæti þeirra höfunda heimsbókmenntanna sem fjallað er um í heilum bókum, en Shakespeare í því næsta. Bróðurparturinn af þessum lærðu bókum, sem skipta orðið þúsundum, fjallar einmitt um Ódysseif, sem Halldór Laxness kallaði 'Fjallið Eina' í Skáldatíma.
Sigurður A. Magnússon er tvímælalaust einn af merkustu þýðendum Íslendinga á síðari hluta 20. aldar. Hann hefur þýtt ótal verk af ýmsum tungumálum og verið óþreytandi við að kynna Íslendingum það merkasta úr bókmenntum heimsins. Þýðing hans á hinu mikla og margslungna verki Joyce, Ódysseifi, er með mestu afrekum á sviði þýðinga sem unnin hafa verið á undanförnum áratugum. Í fyrra var Sigurður gerður að fyrsta heiðursfélaga Bandalags þýðenda og túlka.
Fyrirlesturinn fer fram í stofu 101 í Lögbergi og hefst eins og áður segir kl. 16:30. Allir velkomnir!
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|