23.4.2013 19:47:00
Kristín Guðrún Jónsdóttir hlýtur Íslensku þýðingarverðlaunin 2013
Íslensku þýðingaverðlaunin 2013 voru veitt við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini á Degi bókarinnar, þriðjudaginn 23. apríl. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, veitti verðlaunin sem í þetta sinn féllu í hlut Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur fyrir þýðingu hennar á "Svarti sauðurinn og aðrar fabúlur" eftir Augusto Monterroso (útg. Bjartur).
Í umsögn dómnefndar segir:
"Dómnefnd var algerlega einhuga um að veita Kirstínu Guðrúnu Jónsdóttur þýðingarverðlaun Bandalags þýðenda og túlka árið 2013 fyrir þýðingu hennar á bókinni Svarti sauðurinn og aðrar fabúlur eftir Augusto Monterroso, bókaforlagið Bjartur gaf út á síðasta ári.
Það er mikill fengur að fá að kynnast þessum höfundi sem er fæddur í Guatemala árið 1921 en bjó og starfaði í Mexíkó þar sem hann andaðist árið 2003. Haft er eftir Monterroso að hann hafi lært að vera gagnorður af því að lesa Proust, sem er nokkuð dæmigerð þversögn fyrir höfundinn því eins og alþjóð veit var Proust allt annað en fáorður.
Það úrval sagna Monterrosos sem birtist í Svarti sauðurinn og aðrar fabúlur í þýðingu Kristínar Guðrúnar eru marglaga, smellnar og djúpsæjar. Margar sagnanna eru tilbrigði við klassískar goðsagnir þar sem heimsmyndinni er snúið á hvolf í örfáum dráttum. Tónninn er oft húmorískur og galsafenginn en kjarninn er djúp alvara, enda stækka sögurnar og dýpka við hvern lestur. Rétt eins og dæmisögur Esóps eða Þúsund og ein nótt eru smásögur Monterroso tilvaldar til að grípa niður í reglulega. Þær má lesa fyrir börn ef því er að skipta, svo einfaldar og tærar sem þær eru á yfirborðinu. Knöppu forminu er kannski best lýst með því að benda á að fjörutíu sögur rúmast á rúmum fimmtíu síðum með sæmilega stóru letri og góðu bili á milli lína. Hér hlýtur hvert orð að verða vera hið hárétta.
Það mun ekki áhlaupaverk að skila yfir á önnur tungumál þeim leik með tungumálið og viðtekna heimsýn okkar sem örsögurnar í „Svarti sauðurinn“ og aðrar fabúlur eftir Monterosso opinbera. Þetta verkefni hefur hins vegar Kristín Guðrún leyst með ágætum og augljóst að þýðandi þekkir efnið mjög vel. Fáeinar neðanmálsgreinar og eftirmáli eru hvort tveggja verkinu til framdráttar og til bóta fyrir lesendur. Íslenska þýðingin er unnin af mikilli nákvæmni. Kristín Guðrún færir sögurnar í átt að íslensku stílsniði af smekkvísi og nærfærni en gætir um leið fyllsta trúnaðar. Ankannaleiki er látin halda sér þar sem það á við og þessi tæri og stundum undirfurðulegi tónn ferjaður hnökralaust yfir á auðuga íslensku og með hlýju og andrúmslofti suðrænna slóða. Kaldhæðni og djúpur skilningur á mannlegu eðli er aðalsmerki þessa rithöfundar en þó er það tvíræðnin sem kannski er mesta afrek þýðandans og sem skilar sér m.a. með þeim hætti að sögurnar verða nýjar við hvern lestur.
Með þýðingu sinni hefur Kristín Guðrún Jónsdóttir fært okkur gimstein úr heimsbókmentunum fágaðan svo vel að vart verður betur gert."
Aðrar þýðingar sem voru tilnefndar til verðlaunanna í þetta sinn eru:
Allt er ást eftir Kristian Lundberg í þýðingu Þórdísar Gísladóttur, (útg. Bjartur);
Ariasman eftir Tapio Koivukari í þýðingu Sigurðar Karlssonar, (útg. Uppheimar);
Hjaltlandsljóð, tvímála útgáfa safns ljóða eftir samtímaskáld frá Hjaltlandseyjum í þýðingu Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar, (útg. Dimma);
Sá hlær best ...! sagði pabbi, eftir Gunnillu Bergström í þýðingu Sigrúnar Árnadóttur, (útg. Mál og menning).
Hér má sjá umsagnir dómnefndar um þær.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|