13.6.2012 16:41:00
Jón á Bægisá heldur sínu striki
Jón á Bægisá, tímarit þýðenda, er komið út, stútfullt af þýðingum og greinum. Kristjana Gunnars ritar grein sem nefnist "Að þýða undirtyllur", Jón Atli Bjarnason er með stórfróðlega grein um Poestion, þann sem þýddi mikið af íslenskri ljóðlist á þýsku á fyrri hluta 20. aldar, einnig birtast þarna síðustu greinar Franz heitins Gíslasonar, ein mjög skemmtileg um "hringþýðingar" þar sem forsætisráðherrann fyrrverandi kemur við sögu og önnur um þýðingastarf hans á erlend mál. Sams konar grein er í heftinu eftir Sigurð A. Magnússon þannig að segja má að heftið sé að miklu leyti tengt útrás íslenskra bókmennta sem á sér langa sögu. Enn fremur eru í heftinu ljóð og sögur af ýmsu tagi.
Þýðendur og aðrir áhugamenn um þýðingar og heimsbókmenntir eru hvattir til þess að gerast áskrifendur að heftinu, ef þeir eru ekki þegar búnir að því, og hafa þá samband við bókaforlagið Ormstungu (www.ormstunga.is) sem hefur séð um útgáfu tímaritsins og dreifingu undanfarin ár. Þarna er einstæður vettvangur fyrir þýðendur og þýðingafræðinga til þess að láta ljós sitt skína eða til þess að sjá hvað aðrir eru að pæla.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|