10.2.2017 00:57:00
Íslensku þýðingaverðlaunin nk. miðvikudag
Í ár verða Íslensku þýðingaverðlaunin veitt fyrr en venja hefur verið, eða miðvikudaginn 15. febrúar kl. 16. Verðlaunaafhendingin fer fram í Hannesarholti og Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson veitir verðlaunin. Óvenju margir eru tilnefndir til þýðingaverðlaunanna í ár, alls tíu þýðendur fimm verka.
Tilnefndir þýðendur og verk eru þessi:
- Árni Óskarsson fyrir þýðingu sína á Fjársjóðseyjunni eftir Robert Louis Stevenson sem Mál og menning gefur út.
- Hallgrímur Helgason fyrir þýðingu sína á Óþelló eftir William Shakespeare. Vaka-Helgafell gefur út.
- Olga Holownia ásamt Áslaugu Agnarsdóttur, Braga Ólafssyni, Magnúsi Sigurðssyni og Óskari Árna Óskarssyni fyrir þýðingu á ljóðasafninu Neyðarútgangur eftir Ewu Lipska sem Dimma gefur út.
- Ófeigur Sigurðsson fyrir þýðingu á skáldsögunni Verndargripur eftir Roberto Bolaño sem Sæmundur gefur út.
- Sigurður Pálsson og Sölvi Björn Sigurðsson fyrir þýðingar á ljóðasöfnunum Uppljómanir & Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud sem JPV gefur út.
Í dómnefnd sátu Tinna Ásgeirsdóttir (formaður), Ingunn Ásdísardóttir og Davíð Stefánsson.
Fram til þessa hefur tíðkast að tilkynna verðlaunahafa á Degi bókarinnar, 23. apríl, en þar sem tilnefningar eru kynntar í lok nóvember líður langur tími á milli. Einnig hafa orðið nokkrar breytingar á bókamarkaði frá því að verðlaunin voru fyrst sett á stofn og því var ákveðið að finna heppilegri tíma. Íslensku þýðingaverðlaunin 2017 verða því veitt um svipað leyti og önnur íslensk bókmenntaverðlaun, s.s. Fjöruverðlaunin, Íslensku bókmenntaverðlaunin og viðurkenning Hagþenkis fyrir fræðirit.
Bandalag þýðenda og túlka vonar að sem flestum falli vel þessar breytingar á fyrirkomulagi verðlaunanna.
(Myndin sem fylgir fréttinni er af Hannesarholti og fengin að láni héðan: http://surrealist.org/travel/iceland-reykjavik-literary.html)
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|