8.4.2014 12:18:00
Þýðingakvöld – kynning á tilnefndum bókum
Nú styttist í afhendingu Íslensku þýðingaverðlaunanna og í tilefni af því heldur Bandalag þýðenda og túlka þýðingakvöld í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, fimmtudagskvöldið 10. apríl kl. 20. Þýðendur tilnefndra bóka lesa upp úr þýðingum sínum, kynna bækurnar og spjalla við gesti:
• Ingunn Ásdísardóttir kynnir Ó-Sögur um djöfulskap eftir Carl Jóhan Jensen, útg. Uppheimar.
• María Rán Guðjónsdóttir kynnir Rödd í dvala eftir Dulce Chacón, útg. Sögur.
• Njörður P. Njarðvík kynnir Ljóð 1954-2004 eftir Thomas Tranströmer, útg. Uppheimar.
• Rúnar Helgi Vignisson kynnir Sem ég lá fyrir dauðanum eftir William Faulkner, útg. Uppheimar.
• Stefán Steinsson kynnir Rannsóknir Heródótusar, útg. Forlagið.
Þýðingar af öllu tagi hafa löngum verið ein helsta lífæð íslenskrar tungu og vandaðar bókmenntaþýðingar auðga íslenska menningu, veita innsýn í aðra menningarheima og gleðja margar kynslóðir lesenda. Íslensku þýðingaverðlaunin hafa verið veitt frá árinu 2005 og voru sett á stofn til að heiðra þá þýðendur sem sinna því vandasama verki að færa okkur erlendar bókmenntir á móðurmáli okkar. Fjölmargar bókmenntaperlur hafa verið tilnefndar til verðlaunanna og hlotið þau og varla þarf að segja neinum hvílíkur fengur er að þeim fjölbreyttu úrvalsritum sem nú bætast í þann hóp. Bandalag þýðenda og túlka er þakklátt þýðendunum fimm sem nú taka sér tíma frá önnum dagsins til að eiga með okkur skemmtilega kvöldstund í Gunnarshúsi og veita okkur innsýn í verkin.
Allir eru hjartanlega velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|