13.6.2012 18:47:00
Fróðleiksnáma um þýðingar
Nýlega kom út bókin Translation - Theory and Practice: A Historical Reader. Hér er um að ræða viðamikið sögulegt safnrit á sviði þýðinga og þýðingafræði í ritstjórn Ástráðs Eysteinssonar prófessors og Daniels Weissborts, prófessors emeritus við University of Iowa. Það er hið virta forlag Oxford University Press sem gefur bókina út, en hún er 649 bls., gefin út bæði innbundin og í kilju.
Ritið spannar vítt svið; raktar eru slóðir frá fornum Biblíuþýðingum, og þýðingum í Rómaveldi, allt til okkar daga. Í bókinni er mikið safn texta í 62 köflum, jafnt kunn lykilverk í þýðingaumræðunni sem síður þekktar en mikilvægar umsagnir þýðenda, skálda og fræðimanna um þessa iðju sem er einn af meginþráðum menningarsögunnar.
Úrval textanna spannar allt frá fræðilegum kenningum um þýðingar til skáldlegra texta um ferðir milli tungumála og menningarheima. Eins eru birt fjölmörg dæmi úr mikilvægum þýðingum og suma textana má finna í nokkrum þýðingum, þannig að lesendur geta borið saman og velt vöngum yfir frumtexta og mismunandi endurorðun hans. Umfang bókarinnar mótast annars vegar af alþjóðlegri þýðingaumræðu en hins vegar sérstaklega af þýðingahefð enskrar tungu.
Ritstjórar rita almennan inngang en auk þess fylgja inngangsorð hverjum bókarhluta sem og einstökum köflum.
Þess má geta að í Lesbók Morgunblaðsins 6. janúar 2007 er að finna ítarlega umsögn Jóns Karls Helgasonar bókmenntafræðings um ritið. Þar rekur hann líka nokkur atriði sem mætti fjalla um í íslenskri þýðingasögu sem enn bíður ritunar enda ekki höfð með í síðustu bindum Íslensku bókmenntasögunnar sem Edda gaf út.
Því er svo við að bæta að þetta er ekki eina bókin sem Ástráður Eysteinsson átti aðild að sl. haust og tengist þýðingum, því rétt fyrir jól kom út ný þýðing hans og Eysteins Þorvaldssonar á Die Verwandlung eftir Franz Kafka, undir heitinu Umskiptin. Þeir feðgar hafa nú þýtt flest verk Kafka yfir á íslensku.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|