17.7.2012 18:01:00
Máltækni fyrir alla
Föstudaginn 27. apríl verður haldið málræktarþing um stöðu og framtíðarhorfur íslenskrar tungu á öld upplýsingatækninnar. Yfirskrift þingsins er "Máltækni fyrir alla". Að því standa Íslensk málnefnd, Máltæknisetur og META-NORD, sem er samstarfsverkefni Norðurlanda og Eystrasaltslanda, styrkt af þróunarsjóði Evrópusambandsins á sviði upplýsingatækni. Þingið verður haldið í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, kl. 13-17. Sjá http://www.malfong.is/Malthing/. Málræktarþingið er öllum opið og allt áhugafólk um íslenskt mál, málrækt, máltækni og upplýsingatækni er hvatt til að koma – aðgangur er ókeypis. Dagskrá er á http://www.malfong.is/Malthing/dagskra.html.
Ýmis máltæknibúnaður getur komið að miklu gagni í menntakerfinu og nýst þeim sem fást við ritstörf og þýðingar. Á þinginu verður fjallað um ýmsan slíkan búnað sem nú er unnið að fyrir íslensku. Kynntur verður nýr íslenskur talgervill sem Blindrafélagið er að láta gera, sagt frá undirbúningsvinnu að nýjum íslenskum talgreini sem Háskólinn í Reykjavík og Máltæknisetur vinna að í samstarfi við Google, og fjallað um samhengisháða ritvilluvörn - aðferðir til að finna stafsetningar- og málfræðivillur út frá samhengi. Einnig verður sagt frá ýmsum rafrænum gagnasöfnum og hugbúnaði til málfræðilegrar greiningar, s.s. Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, Markaðri íslenskri málheild, málvinnslutólinu IceNLP o.fl. Þá verður rætt um stöðu íslenskunnar gagnvart nýjum búnaði eins og spjaldtölvum og lesbrettum.
Allir sem hafa áhuga á menntamálum, ritstörfum og þýðingum eru hvattir til að koma á málþingið og kynna sér hvað íslensk máltækni hefur upp á að bjóða.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|