13.6.2012 21:29:00
Ánægjulegur aðalfundur

Aðalfundur Bandalags þýðenda og túlka var haldinn í Þjóðmenningarhúsinu á laugardaginn var. Nýja stjórn skipa þau Gauti Kristmannsson, formaður, Árný Guðmundsdóttir, gjaldkeri, Gunnhildur Stefánsdóttir, ritari, Guðrún Tulinius og Rúnar Helgi Vignisson, meðstjórnendur, og Margrét Pálsdóttir og Haraldur Jóhannsson, varamenn. Haraldur kemur í stað Björns Baldurssonar, sem ekki gaf kost á sér í stjórnina. Birni eru hér með færðar þakkir fyrir vel unnin störf. Sjá má mynd af nýju stjórninni í liðnum Stjórn hér til vinstri.

Það lífgaði upp á fundinn að nokkrir unglingar úr leikhópnum Borgarbörnum sýndu atriði úr gamanleiknum Allt í misgripum eftir William Shakespeare. Leikritið er í þýðingu Helga Hálfdanarsonar, en nú stendur einmitt yfir sýning á verkum Helga í Þjóðmenningarhúsinu.

Börnin fóru einstaklega vel með tyrfinn textann - og varð einum fundarmanna á orði að menn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af íslensku máli. Unga fólkið myndi halda áfram að glíma við tungumálið og miðla bókmenntum í töluðu máli ekki síður en rituðu.





Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]