25.11.2014 15:06:00
Þýðingahlaðborð æskunnar
Árlegt þýðingahlaðborð Bandalags þýðenda og túlka verður haldið í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu laugardaginn 29. nóvember kl. 15.
Barna- og unglingabækur gleymast stundum í jólabókaflóðinu eða hverfa í skuggann af öðrum bókum, bæði frumsömdum og þýddum, og oftast skyggja "fullorðinsbækur" á allt annað í umræðunni. Við hjá Bandalagi þýðenda og túlka vitum að þýðing á barna- og unglingabókum getur verið vandasamt verk og er oft glæsilega af hendi leyst, þótt umfjöllun kunni að vera lítil. Við vildum vekja meiri athygli á þessari bókmenntagrein og fengum til liðs við okkur þýðendur og bókaútgáfur sem ætla að kynna nokkra titla sem koma út núna fyrir jólin.
Við byrjum á yngra fólkinu:
Nanna norn, höf. Korky Paul og Valerie Thomas, þýð. Hallgrímur Helgi Helgason.
Nanna norn býr í svörtu húsi í skóginum. Húsið er svart að utan og svart að innan, gólfteppin eru svört, stólarnir svartir og meira að segja baðkarið er svart. Kötturinn hennar, hann Njörður, er líka kolbikasvartur og þess vegna verður hann alveg ósýnilegur þegar hann lokar grænu augunum. Nanna og Njörður lenda í ýmsum ævintýrum og það kemur sér oft vel að Nanna skuli kunna að galdra.
Örleifur og hvalurinn, þýð. Þórarinn Eldjárn.
Kvæðið um Örleif og hvalinn er eitt af vinsælustu barnaljóðum pólska skáldsins Julians Tuwim.
Örleifur er agnarsmár en langar þó mest af öllu til að hitta stærsta dýr veraldar. Þess vegna leggur hann upp í leiðangur á litlum báti til að finna hval.
Skúli skelfir, höf. Francesca Simon og Tony Ross, þýð. Guðni Kolbeinsson.
Skúli nýtur gríðarlegra vinsælda meðal íslenskra lestrarhesta og barna um allan heim og þaulhugsuð hrekkjabrögð hans vekja kátínu og hlátur stálpaðra krakka.
Seinni hluti þýðingahlaðborðsins er ætlaður unglingum á öllum aldri:
Eleanor og Park, höf. Rainbow Rowell, þýð. Marta Hlín Magnadóttir.
Eleanor er nýja stelpan í skólanum og fellur ekki inn í hópinn; ósamstæð föt úr Rauðakrossbúðinni, úfnar rauðar krullur … Svo sest hún við hliðina á Park í skólabílnum. Hann er hljóðlátur, framandi og óendanlega svalur.
Rauð sem blóð, höf. Salla Simukka, þýð. Erla E. Völudóttir.
Eftir áralangt einelti treystir Mjallhvít engum og fyrirlítur skólasysturina Elsu og töffarana Kasper og Tuukka. Með þeim lendir hún þó í hringiðu atburða sem tengjast alþjóðlegum eiturlyfjahring og kaldrifjuðum glæpamönnum. Fyrsta bókin í nýjum og ísköldum finnskum þríleik.
Inn í sortann, höf. Celine Kiernan, þýð. Birgitta Elín Hassell.
Heimili Finnerty-fjölskyldunnar brennur til grunna og á blautum vetrardegi neyðast þau til að flytja í hrörlegt sumarhús við ströndina. Þegar undarlega vera tekur sér bólfestu í líkama Dominicks er Patrick, tvíburabróðir hans, sá eini sem tekur eftir því. Æsispennandi draugasaga!
Aðgangur er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir!
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|