13.6.2012 16:33:00
Jólaþýðingar

Þýðingar skipa stóran sess í jólabókaflóðinu og auka framboð góðra bóka. Í sérstakri jólafyrirlestraröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur verður lesendum gert kleift að skyggnast inn í heim þýðandans og hlýða á eftirfarandi þýðendur skýra frá vinnu sinni og glímunni við verkið.  

Fyrirlestrarnir fara fram í Lögbergi stofu 101.

Miðvikudag 6. desember kl. 16:30

Silja Aðalsteinsdóttir – Wuthering Heights eftir Emily Brontë

Wuthering Heights er meðal frægustu skáldsagna enskra bókmennta og kemur enn út í mörgum útgáfum á ári hverju þótt hún sé að verða 160 ára. Frásagnarháttur hennar þykir enn nýstárlegur og persónurnar og örlög þeirra verða lesendum ógleymanleg. Þó var höfundurinn tæplega þrítug prestsdóttir og piparmey sem fátt hafði séð og ekkert reynt – að því er séð verður – af þeim hamslausu ástríðum sem saga hennar segir frá.

Silja mun kynna nýútkomna þýðingu sína á þessu klassíska verki heimsbókmenntanna og m.a. fræða gesti um hvers vegna titillinn fékk að halda sér á frummálinu. En bókin er þekkt hér á landi undir heitinu „Fýkur yfir hæðir“ í þýðingu Sigurlaugar Björnsdóttur sem kom út árið 1951.

 Fimmtudag 7. desember kl. 16:30

Árni Bergmann, Áslaug Agnarsdóttir og Þórarinn Kristjánsson: Mírgorod eftir Nikolaj Gogol

Nikolaj Gogol (1809 – 1852) er einn helsti meistari rússneskrar frásagnarlistar. Hann sameinar í verkum sínum hugarflug og beitta kímni sem njóta sín ekki síst í smásögum hans. Hávallaútgáfan hefur gefið út sagnasafnið Mírgorod sem samanstendur af fjórum sögum sem allar eiga það sammerkt að vísa til heimahaga skáldsins í Úkraínu.

Árni Bergmann mun ræða um þýðingu sína og hvers lags erfiðleika er við að etja þegar sögur eftir Gogol eru þýddar.

Ólöf Eldjárn: Undantekningin eftir Christian Jungersen

Undantekningin er mögnuð saga um hin mörgu andlit ástarinnar og illskunnar. Hún er margföld metsölubók í Danmörku og víða um heim, rómuð jafnt af lesendum sem gagnrýnendum og hlaut dönsku bóksalaverðlaunin “Gylltu lárberin” árið 2004, auk bókmenntaverðlauna Danska ríkisútvarpsins. Fyrsta skáldsaga Christian Jungersen, Krat, sem kom út árið 1999, færði honum bókmenntaverðlaun BogForums og þriggja ára starfslaun frá Statens Kunstfond.

Ólöf Eldjárn greinir frá vinnu sinni við þýðingu þessa meistaraverks ásamt því að fjalla um verkið sjálft og höfundinn.

Þriðjudag 12. desember kl. 16:30

Guðni Kolbeins: Eragon - Öldungurinn eftir Christopher Paolini

Eragon – Öldungurinn er loksins komin út hér á landi en hún trónir í efstu sætum metsölulista víða um heim enda þykir hún fádæma vel heppnuð. Hún er núna í 1. sæti metsölulista New York Times yfir innbundnar bækur fyrir ungt fólk og kiljuútgáfan af Eragon er í 1. sæti yfir mest seldu kiljurnar samkvæmt sama lista. Höfundurinn hóf að skrifa bækurnar aðeins 17 ára gamall og hefur komið á óvart hversu þroskuð skrif hans eru.

Þýðingar á barna- og unglingabókum eru ekki síður krefjandi og fáir sem státa af jafnmikilli reynslu í því og Guðni Kolbeins.

Guðlaugur Bergmundsson: Krossmessan eftir Jógvan Isaksen

Krossmessa er nýjasta sakamálasaga færeyska rithöfundarins Jógvans Isaksens. Í Krossmessu tekur blaðamaðurinn Hannis Martinsson að sér að rannsaka morð á tveimur ungum breskum umhverfisverndarsinnum sem fundust látnir innan um dauða grindhvali í Þórshöfn. Krossmessa er æsispennandi og vekur upp spurningar um stöðu smáríkja og rétt þeirra til að nýta náttúruauðlindir sínar á sjálfbæran hátt. Krossmessa var mest selda bókin í Færeyjum 2005.

Guðlaugur skýrir frá viðureign sinni við þýðinguna og hvernig er að þýða af svo skyldu tungumáli sem færeyskan er.

Allir velkomnir!


Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]