13.6.2012 18:51:00
Ritþing um Ingibjörgu Haraldsdóttur og málþing um þýðingar
Ritþing hafa verið haldin í Gerðubergi frá árinu 1999 og hafa skipað sér fastan sess í menningarlífi borgarinnar. Þeim er ætlað að veita persónulega innsýn í líf og feril íslenskra rithöfunda. Að þessu sinni mun rithöfundurinn og þýðandinn Ingibjörg Haraldsdóttir sitja fyrir svörum hjá þeim Silju Aðalsteinsdóttur, stjórnanda þingsins, og spyrlunum Áslaugu Agnarsdóttur og Jóni Karli Helgasyni sem öll hafa stundað bókmenntarannsóknir og þýðingar. Upplesari er Guðmundur Ólafsson leikari og tónlistaratriði eru í höndum Jóhönnu V. Þórhallsdóttur söngkonu, Aðalheiðar Þorsteinsdóttur píanóleikara og Gunnars Hrafnssonar bassaleikara.
Á sunnudeginum verður haldið málþing um þýðingar og mun Ingibjörg Haraldsdóttir halda fyrirlestur um ljóða- og leikritaþýðingar sínar. Ástráður Eysteinsson mun fjalla um stöðu og vægi þýðinga í lífi og sögu bókmenntanna og í hinni rituðu bókmenntasögu - m.a. með hliðsjón af nýútkominni sögu íslenskra nútímabókmennta. Þá mun Kendra Jean Willson fjalla um ljóðstafi og viðtökur ljóðaþýðinga.
Að lokum mun Berglind Guðmundsdóttir fjalla um íslenskar þýðingar á Lady Chatterley's Lover eftir D.H. Lawrence. Málþingið er helgað minningu Franz Gíslasonar þýðanda.
Ingibjörgu Haraldsdóttur þarf vart að kynna en hún hefur skipað sér sess meðal fremstu ljóðskálda hér á landi og hefur jafnframt þýtt fjölda bókmenntaverka; úr rússnesku, spænsku og sænsku. Ingibjörg fæddist í Reykjavík 21. október 1942. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1962 og hélt ári síðar til Rússlands á vit framandi menningar. Að loknu námi í rússnesku hóf hún nám í kvikmyndastjórn við Kvikmyndaskólann í Moskvu og lauk Mag.art prófi þaðan árið 1969. Ingibjörg fluttist til Havana á Kúbu og starfaði þar sem aðstoðarleikstjóri við Teatro Estudio frá 1970-1975 en þá hélt hún aftur heim til Íslands. Hún starfaði um árabil sem blaðamaður og kvikmyndagagnrýnandi á Þjóðviljanum en hefur verið ljóðskáld og þýðandi að aðalstarfi frá árinu 1981.
Fyrsta ljóðabók Ingibjargar, Þangað vil ég fljúga, kom út árið 1974. Alls hafa komið út eftir hana sex ljóðabækur, þar af ein safnbók og hafa ljóð hennar verið þýdd á fjölda tungumála. Fyrir nýjustu ljóðabók sína, Hvar sem ég verð, hlaut Ingibjörg Íslensku bókmenntaverðlaunin 2002.
Ingibjörg hefur verið afar afkastamikill þýðandi og hefur þýtt bæði skáldsögur, smásögur, leikrit og ljóð. Af skáldsagnaþýðingum má nefna verk rússnesku rithöfundanna Fjodors Dostojevskís, Antons Tsjekhovs, Míkhaíls Búlgakovs og skáldsögu eftir rithöfundinn Manuel Scorza frá Perú. Af ljóðaþýðingum má nefna ljóð eftir sænska rithöfundinn Tomas Tranströmer og rússnesku skáldkonuna Marínu Tsvetajevu. Er þá aðeins fátt eitt upp talið.
Ingibjörg sat í stjórn Rithöfundasambands Íslands frá 1992-1998 og var formaður þess frá 1994-1998. Hún var í ritnefnd Tímarits Máls og menningar frá 1977 og var aðstoðarritstjóri tímaritsins frá 1993-2000. Ingibjörg situr í ritnefnd Jóns á Bægisá – Tímarits þýðenda.
Verðlaun:
2004 - Íslensku þýðingarverðlaunin: Fjárhættuspilarinn eftir Fjodor Dostojevskí
2003 - Borgarlistamaður Reykjavíkurborgar
2002 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Hvar sem ég verð
2002 - Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu: fyrir störf í þágu íslenskra bókmennta
2000 - Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar
1988 - Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Fávitinn eftir Fjodor Dostojevski (þýðing)
Tilnefningar:
2004 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Hvar sem ég verð
1995 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Höfuð konunnar
1993 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Nú eru aðrir tímar
1989 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Nú eru aðrir tímar
Sjá nánari upplýsingar um Ingibjörg og ritaskrá á bokmenntir.is.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|