13.6.2012 19:45:00
„Þetta var ekki bara draumur“
Ástráður Eysteinsson fjallar um þýðinguna á Umskiptunum
Ástráður Eysteinsson, prófessor og þýðandi, er næstur í fyrirlestraröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur um þýðingar öndvegisverka. Á mánudaginn kl. 16:30 flytur hann fyrirlestur sem hann kallar ,,Þetta var ekki bara draumur", vandinn að skilja og þýða Umskiptin. Hér er að sjálfsögðu átt við hið fræga verk Franz Kafka, Die Verwandlung, sem áður hefur komið út í þýðingu Hannesar Péturssonar skálds undir heitinu Hamskiptin. Nýju þýðinguna unnu feðgarnir Ástráður og Eysteinn Þorvaldsson en þeir hafa nú þýtt obbann af höfundarverki Kafka auk þess að skrifa fjölda greina um höfundinn. Fyrirlestur Ástráðs fer fram í Aðalbyggingu Háskóla Íslands, stofu 111.
Í kynningartexta frá Stofnun Vigdísar segir:
Nóvellan Umskiptin (Die Verwandlung) er, ásamt skáldsögunni Réttarhöldunum, þekktasta verk pragverska rithöfundarins Franz Kafka – og jafnframt eitt frægasta sagnaverk evrópskra bókmennta á 20. öld. Þetta er saga sem margir þekkja og hafa lesið en jafnframt verk sem enn vefst mjög fyrir þeim sem leitast við að túlka eða „skýra“ hana – svo mjög raunar, að rætt hefur verið um „örvæntingu túlkandans“. Í erindinu verður spurt hvaða þröskuldar mæti skilningi lesenda í sögunni. Í því samhengi verður einnig velt vöngum yfir reynslunni af því að þýða slíkt verk yfir á íslensku. Allir velkomnir!
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|