10.9.2014 12:38:00
Art in Translation, alþjóðleg ráðstefna í Norræna húsinu og Háskóla Íslands, 18.-20. september 2014
Art in Translation er spennandi alþjóðleg ráðstefna sem nú er haldin í Reykjavík í þriðja sinn. Það eru Háskóli Íslands, Listaháskóli Íslands og Háskólinn í Manitoba, auk Norræna hússins, sem standa að ráðstefnunni.
Ráðstefnuna sækja listamenn og fræðimenn frá ýmsum löndum og fjalla um listir og ritlist frá ótal sjónarhornum, en þema ráðstefnunnar að þessu sinni er listin að vera á milli (The Art of Being In-Between).
Aðalfyrirlesari er hin heimskunna Amy Tan, höfundur bókanna Leikur hlæjandi láns og Kona eldhúsguðsins sem notið hafa mikillar hylli hvar sem þær hafa komið út. Amy Tan á sér stóran lesendahóp á Íslandi og er það sérstakt fagnaðarefni að fá hana hingað til lands.
Amy Tan mun flytja erindi og svara spurningum áhorfenda í Silfurbergi í Hörpu, föstudaginn 19. september kl. 20. Miðaverð er 2000 krónur og fer miðasala fram á harpa.is. Auk þess verða bækur Amy Tan til sölu fyrir og eftir fyrirlesturinn.
Aðrir lykilfyrirlesarar eru Roger Allen (sérsvið: arabískar bókmenntir og þýðingar), Matthew Rubery (sérsvið: lestrarvenjur, hljóðbækur, blindraletur) og David Spurr (sérsvið: samanburðarbókmenntir, m.a. með áherslu á arkitektúr í bókmenntum).
Listamannaþríeyki, sem samanstendur af Bjarka Bragasyni, Claudiu Hausfeld og
Hildigunni Birgisdóttur, mun flytja opnunarerindi ráðstefnunnar fimmtudaginn 18. september. Fjallar það um skilgreiningar á eiginleikum hluta og ólíkar leiðir til að rannsaka stað. Verk þeirra er hægt að sjá í Hverfisgalleríi til 4. október 2014.
Erindin á ráðstefnunni eru afar fjölbreytt og fara fram í átján málstofum. Fjallað verður um tónlist, teiknimyndasögur, bíómyndir, videólist, myndlist og gjörningalist, þýðingar, bókmenntir og náttúru á breiðum grunni auk þess sem boðið verður upp á listgjörninga.
Í gjörningahluta ráðstefnunnar verður ráðstefnugestum meðal annars boðið að fara ofan í holu íslenskra fræða í fylgd Töfrafjallsins, en það er hópur skipaður bæði listamönnum og fræðimönnum, og upplifa þar nýja og óvænta sýn á íslenskan veruleika.
Á meðal fræðilegra erinda má nefna umfjöllun um Múmínálfana, erindi um persónu Sögu Norén í norrænu spennuþáttunum Brúnni og samanburð á kvikmynd Wim Wenders, Wings of Desire, og ljóðum Rainers Maria Rilke.
Dagskrána má nálgast í heild sinni á vef ráðstefnunnar, www.artintranslation.hi.is, og þar er einnig að finna upplýsingar um skráningu á ráðstefnuna.
Það eru Norræna húsið, Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi, Reykjavík bókmenntaborg UNESCO og Konfúsíusarstofnun Norðurljós sem styðja við ráðstefnuna og heimsókn Amy Tan til Íslands.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|