13.6.2012 19:33:00
Ný spænsk-íslensk og íslensk-spænsk oðabók í vændum
Fyrsti vísir að orðabók á Íslandi var baskneskt-íslenskt orðasafn sem fæddist af samskiptum Íslendinga og baskneskra sjómanna á Vestfjörðum síðla 16. aldar og fram á þá 17. Síðan þá hafa samskipti við Spán farið sívaxandi og nú er Spánn það land sem flestir Íslendingar sækja heim. Að sama skapi hefur Rómanska Ameríka laðað unnendur spænskrar tungu til sín og hefur vægi spænsku sem viðskiptamáls aldrei verið meira. Hefur það leitt til þess að spænskunemum hefur fjölgað þannig að flestir framhaldsskólar landsins bjóða upp á spænsku sem þriðja mál. Þar af leiðandi hefur skortur á nútímalegri spænsk-íslenskri orðabók aldrei verið jafn aðkallandi.
Fram til þessa hafa verið gefnar út tvær spænsk-íslenskar orðabækur. Sú fyrri er Spænsk-íslensk vasaorðabók eftir Elisabeth Hangartner Ásbjörnsson og Elvira Herrera Ólafsson (1978). Hún hefur nýst framhaldsskólanemum í fyrsta og öðrum áfanga spænskunáms en er barn síns tíma og gefur ekki ítarlegri upplýsingar um orð en kyn þeirra. Málnotkunardæmi eru engin. Síðari bókin, Spænsk-íslensk orðabók, er stærri. Hún er eftir Sigurð Sigurmundsson frá Hvítárholti og kom hún út árið 1973 og aftur árið 1995. Bókin ber þess ýmis merki að höfundur hafði ekki menntun í spænsku en eftir stendur engu að síður aðdáun á frumkvöðlaverki sjálfmenntaðs manns.
Þrátt fyrir augljósa þörf á spænsk-íslenskri orðabók tók þó nokkurn tíma að afla fjár til að hægt væri að hefjast handa við gerð orðabókarinnar. Verkið er kostnaðarsamt og enginn fjárhagslegur ábati fyrir bókaforlög af því að leggja í slíkt verk. Því var nauðsynlegt að fá öfluga liðsmenn til að hleypa verkinu af stað. Höfðinglegur styrkur frá Menntamálaráðuneyti og Minningarsjóði Margrétar Björgólfsdóttur gerði Háskólanum í Reykjavík og Eddu útgáfu kleift að setjast að samningaborði og hefja samvinnu um verkið.
Til verksins voru ráðnir 3 sérfræðingar í spænsku í rúmlega tvö stöðugildi, þær Guðrún H. Tulinius, Ragnheiður Kristinsdóttir og Sigrún Á. Eiríksdóttir. Ritstjóri verksins er Margrét Jónsdóttir og Laufey Leifsdóttir kemur að verkinu fyrir hönd Eddu útgáfu.
Til að spara tíma og fé var ákveðið að fá aðkeyptan orðabókargrunn frá hinni virtu útgáfu Harper-Collins. Um er að ræða rúmlega 20.000 flettur í hvora átt og er ætlunin að auka við þann fjölda sérvöldum orðaforða, þannig að spænsk-íslenski hlutinn innihaldi um 25.000 flettur. Íslensk-spænski hlutinn verður svipaður að umfangi.
Við val á gagnagrunni var haft í huga að bókin henti byrjendum í spænsku og nemendum sem enn eru ekki komnir það langt í að tileinka sér málið að þeir geti notast við spænsk-spænskar orðabækur. Jafnframt er miðað við að bókin nýtist öðrum, s.s. ferðamönnum, húseigendum á Spáni og þeim sem stunda viðskipti við hinn spænskumælandi heim. Þó að íslensk-spænski hlutinn miðist aðallega við Íslendinga í spænskunámi, er einnig tekið mið af spænskumælandi fólki á Íslandi sem ekki hefur íslensku að móðurmáli.
Vinnan við orðabókina hófst í október 2005. Notast er við orðabókarforritið Lexa sem skrifað var af sérfræðingum á orðabókardeild Eddu. Ætlunin var að flytja Harper-Collins grunninn inn í Lexuna en þar sem samningar um kaup á orðagrunninum drógust á langinn hefur danskur grunnur frá GADE útgáfunni verið lagður til grundvallar og viðbætur og breytingar færðar inn í hann eftir prentuðu orðabókinni frá Harper-Collins. Vinnan hefur því aðallega verið fólgin í því að þýða ýmist úr dönsku eða ensku. Verkið hefur gengið vel og er innslætti á fyrri hluta bókarinnar lokið og yfirlestur hafinn. Vonir standa til að sá hluti verði aðgengilegur á veraldarvefnum á haustmánuðum 2006.
Í orðabókinni verður algengasti orðaforði spænskrar tungu undanfarinna ára, þ.á m. orð frá spænskumælandi löndum Ameríku. Ýmis orð eru sérmerkt annaðhvort Spáni (ESP) eða Ameríku (AM) og fyrir kemur að orð sé sérmerkt einstöku landi þar. Öll algengustu orð og hugtök eru uppflettiorð í bókinni. Gerð er ítarleg grein fyrir merkingu þeirra og notkun og fjölmörg notkunardæmi eru birt í bókinni.
Eitt sérkenni bókarinnar eru upplýsingar af menningarlegum toga, sem ætlunin er að bæta verulega við. Einnig eru upplýsingar um fjölda gagnlegra skammstafana og málfræðilegar upplýsingar, þ.á m. um beygingu sagna. Starfsmenn orðabókarinnar hafa bætt við talsverðum sérhæfðum orðaforða, t.d. varðandi atvinnugreinar hér á landi, dýralíf, lögfræði, hagfræði, viðskipti, listir, heilbrigðismál, frístundir, ferðalög, jarðfræði og margt fleira. Er ætlunin að hafa í íslensk-spænska hlutanum samskonar menningarlegar upplýsingar og finna má í þeim spænsk-íslenska, en eitt af markmiðum ritstjórnar er að auka menningarlæsi þeirra sem nýta sér bókina, hvort sem um spænskumælandi lönd er að ræða eða Ísland.
Þegar fyrri hluta er lokið verður orðunum varpað yfir í hinn hlutann þannig að öll þau orð sem hafa einfalda skýringu fara sjálfvirkt inn í íslensk-spænska hlutann. Dæmi: orgullo: nm, stolt, mont. Bæði þýðingarorðin, stolt og mont, fara inn sem íslensk uppflettiorð og munu starfsmenn greina orðin og finna dæmi um notkun þeirra. Einnig verður grunnurinn borinn saman við aðrar tvímála orðabækur sem Edda útgáfa gefur út sem og íslenskan orðagrunn útgáfunnar.
Ef áætlanir standast kemur spænsk-íslensk, íslensk-spænsk orðabók út árið 2008. Þar sem verkinu hefur miðað framar vonum er líklegt að svo verði. Er það von undirritaðra að hér sé á ferðinni orðabók sem stenst tíma- og kostnaðaráætlanir og verði lifandi vitnisburður um gott samstarf háskóla og atvinnulífs.
Guðrún H. Tulinius og Margrét Jónsdóttir
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|