17.7.2012 16:49:00
Málþing um Dante á nýrri öld
Laugardaginn 23. október kl. 13 í Þjóðmenningarhúsinu
Laugardaginn 23. október verður haldið málþing um Dante Alighieri í Þjóðmenningarhúsinu í tilefni af nýútkominni þýðingu Erlings E. Halldórssonar á Gleðileiknum guðdómlega. Að málþinginu standa Ítalska sendiráðið í Osló og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur.
Dagskráin hefst kl. 13:00.
ERINDI:
Hjalti Snær Ægisson: Dante á íslensku
Gleðileikurinn guðdómlegi kemur út á íslensku haustið 2010 í fyrsta skiptið í heild sinni. Ævi Dante Alighieri og verk hans eru þó ekki ókunnug Íslendingum, um hann hafa verið ort ljóð og ýmsir hafa spreytt sig á að þýða verk hans, að hluta eða í heild. Í fyrirlestrinum verður viðtökusaga Dante Alighieri á Íslandi rakin frá miðri 19. öld til okkar tíma.
Claudio di Felice: Ísland lesið út úr Gleðileiknum (enska)
Orðasambandið „tu le“ kemur fyrir tvisvar í Gleðileik Dantes. Nýlegar túlkanir þessara staða byggja á leshættinum „Thule“, goðsagnakenndum stað sem í fornöld átti að hafa verið úti við jaðar hins byggilega heims. Í fyrirlestrinum verður velt vöngum yfir því hvort hér sé komin sönnun þess að Gleðileikurinn sé ekki eingöngu ímyndun og skáldlegt hugarflug, heldur vitnisburður um raunverulegt ferðalag til Íslands.
Halla Margrét Jóhannesdóttir: Frá Dauðasyndum til Gleðileiks
Sýningin Dauðasyndirnar, sem sett var upp í Borgarleikhúsinu vorið 2008, var frjálsleg túlkun á Gleðileik Dantes. Fjórir trúðar fylgdu Dante í gegnum söguna. Sýningin fékk fádæma góðar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda. Hver var leið listamannanna við að setja Gleðileikinn á svið? Hvernig bar það til að Dante sem upphaflega átti ekki að vera með var allt í einu orðinn aðalmaðurinn?
Claudio Giunta: Nýjar skýringar við verk Dante (enska)
Ítalska bókaforlagið Mondadori hefur í hyggju að gefa út nýjar skýringar við verk Dante Alighieri – að Gleðileiknum einum undanskildum – í útgáfuröðinni „I Meridiani“. Í fyrirlestrinum verður fjallað um vandamálin sem fylgja því að semja svona skýringar. Hvernig ættu nútímalegar Dante-skýringar að vera og hvernig ekki? Er hægt að segja nokkuð nýtt? Hvaða gervivandamál ætti að forðast?
Málþingsstjóri: Stefano Rosatti, ítölskudeild Háskóla Íslands.
Kaffi og veitingar í hléi. Allir velkomnir!
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|