28.9.2012 14:32:00
Bróðir minn Ljónshjarta, Gúmmí Tarsan og Haraldur Potsson
Á hverju ári heldur Bandalag þýðenda og túlka (ÞOT) alþjóðadag þýðenda hátíðlegan með málþingi sem fjallar um einhvern þátt þýðinga. Í ár urðu þýðingar á barnabókum fyrir valinu og þrír mætir barnabókavinir fengnir til að halda erindi. Dagskráin verður á efri hæðinni í Iðnó kl. 15-17 sunnudaginn 30. september og er svohljóðandi:
Sölvi Björn Sigurðsson, formaður ÞOT: Ávarp.
Þorleifur Hauksson: Bróðir minn Ljónshjarta, tímamótaverk í barnabókmenntum.
Þorleifur fjallar um þessa ástsælu bók Astrid Lindgren og sérkenni hennar miðað við aðrar bækur höfundar, auk þess sem vikið er að vettvangi barnabóka á Íslandi á áttunda áratug liðinnar aldar þegar sagan kom út í íslenskri þýðingu.
Brynhildur Björnsdóttir: Pippí langstrumpur og Haraldur Potsson.
Brynhildur skýrir frá hugleiðingum sínum um hvers vegna sum nöfn eru þýdd og önnur ekki í barnabókum og hvort það skipti einhverju máli.
Þórarinn Leifsson: Ole Lund Kirkegaard, Góði dátinn Svejk og Nonna-bækurnar.
Þórarinn fjallar um Ole Lund Kirkegaard, höfund Gummí Tarsans, sem drakk sig í hel árið 1979. Þórarinn reynir að ná utan um hippaára-paradísarmissi þeirra beggja: Óla sem mætti dauðanum á fylleríi og drengsins sem hann var eitt sinn sjálfur, þegar hann flutti frá Danmörku í kaldranalegt íslenskt umhverfi og var sagt að Góði dátinn Svejk væri klám svo hann ætti frekar að lesa Nonnabækurnar. Hann ætlar líka að velta vöngum yfir því hvernig er að alast upp í tveimur tungumálaheimum.
Hægt er að kaupa kaffiveitingar á staðnum og njóta almennra umræða að erindum loknum. Aðgangur er ókeypis og eru allir unnendur góðra bóka og þýðinga hvattir til að mæta, rifja upp sitt innra barn og bækurnar sem við lásum þá!
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|