18.6.2012 19:48:00
Ingunn Ásdísardóttir: Að leggja orð í munn
Ingunn Ásdísardóttir, leikstjóri og þýðandi: Að leggja orð í munn
Miðvikudagur 18. mars kl. 16:30 - Fyrirlestrasalur Þjóðminjasafnsins
Ingunn mun ræða um muninn á því að þýða leikrit og skáldsögur og velta fyrir sér ýmsum sérhæfðum spurningum sem þarf að takast á við þegar leikrit er þýtt. Síðast þýddi hún leikritið Vestrið eina sem sýnt var í Borgarleikhúsinu á haustmánuðum og mun hún styðjast við dæmi úr þeirri þýðingu sinni ásamt fleiri verkum sem hún hefur þýtt.
Ingunn hefur þýtt leikrit fyrir ýmis leikhús í Reykjavík, meðal annars Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið. Á meðal leikritaþýðinga hennar eru verk eftir Harold Pinter, Peter Barnes, David Mamet, Terrence McNally, Eve Ensler, Edward Albee og Martin McDonagh. Hún hefur einnig starfað sem blaðamaður og bókmenntagagnrýnandi og þýtt fjölda fræðirita og fagurbókmenntir af ýmsu tagi. Ingunn gaf út bókina Örlög guðanna ásamt Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur á síðasta ári og var hún tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Ingunn lauk B.A.prófi í enskum bókmenntum og almennri bókmenntafræði með áherslu á leikbókmenntir frá Háskóla Íslands 1981. Hún hefur einnig lokið leikstjórnarnámi við Theater der Keller og Borgarleikhúsið í Köln ásamt M.A.prófi í þjóðfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað sem leikstjóri í hartnær tuttugu ár og sett upp fjölda sýninga bæði hjá atvinnuleikhúsum og áhugafélögum.
Erindið er hluti af fyrirlestraröðinni ‘þýðing öndvegisverka’ sem er haldin á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur til að gefa leikum jafnt sem lærðum færi á að skyggnast inn í heim þýðandans. Fjölmargir þýðendur hafa tekið þátt í fyrirlestraröðinni og var að þessu sinni ákveðið að leggja sérstaka áherslu á leikritaþýðingar.
Allir velkomnir!
Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur á Netinu: http://www.vigdis.hi.is/
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|