1.12.2014 20:24:00
Íslensku þýðingaverðlaunin - Tilnefningar 2014

Í dag, 1. desember, var tilkynnt á Kjarvalsstöðum hverjir hlutu tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna árið 2014. Tilnefningar hlutu Gyrðir Elíasson fyrir Listin að vera einn eftir Shuntaro Tanikawa, útg. Dimma; Silja Aðalsteinsdóttir fyrir Lífið að leysa eftir Alice Munro, útg. Mál og menning; Jón St. Kristjánsson fyrir Náðarstund eftir Hannah Kent, útg. JPV; Hermann Stefánsson fyrir Uppfinning Morels eftir Adolfo Bioy Casares, útg. Kind (1005 Tímaritaröð); og Herdís Hreiðarsdóttir fyrir Út í vitann eftir Virginia Woolf, útg. Ugla. Einnig var tilkynnt um tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir barnabækur, bækur almenns eðlis og fagurbókmenntir (sjá aftar).

Bandalag þýðenda og túlka hefur frá árinu 2005 veitt verðlaun á alþjóðlegum degi bókarinnar, 23. apríl, fyrir íslenska þýðingu á erlendu skáldverki.Forseti Íslands afhendir verðlaunin á Gljúfrasteini, en svo vill til að dagur bókarinnar er einnig fæðingardagur Halldórs Laxness. Íslensku þýðingaverðlaunin voru sett á fót til að vekja athygli á mikilvægi þýðinga fyrir íslenska menningu og þeim afbragðsverkum sem auðga íslenskar fagurbókmenntir á ári hverju fyrir tilstilli þýðenda. Tilnefningar eru kynntar samhliða tilnefningum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Umsögn dómnefndar Íslensku þýðingaverðlaunanna er sem hér segir:

Listin að vera einn eftir Shuntaro Tanikawa, Gyrðir Elíasson þýddi
Með þýðingu sinni á ljóðum Shuntaro Tanikawa kynnir Gyrðir Elíasson okkur eitt helsta núlifandi skáld Japana. Tanikawa er meðal annars þekktur fyrir glímu sína við tungumálið og það hvernig hann teygir það og togar, en þó þykir texti hans tær og virðist áreynslulaus líkt og skilar sér í þýðingum Gyrðis á ljóðunum.
 
Út í vitann eftir Virginiu Woolf, Herdís Hreiðarsdóttir þýddi
Út í vitann er lykilbók í höfundarverki Virginiu Woolf og eitt af meginverkum vestrænna bókmennta, skrifað í vitundarstreymi þar sem hefðbundin setningaskipan er brotin upp til að líkja eftir hugsun mannsins. Það er ekki áhlaupaverk að þýða slíka bók en Herdís Hreiðarsdóttir leysir það afburðavel. Hún leggur sig meðal annars eftir því að halda setninga- og greinarmerkjaskipan sem næst því sem háttar í frumtextanum og skilar þannig einu af lykilatriðum textans, án þess að glata flæði hans.
 
Lífið að leysa eftir Alice Munro, Silja Aðalsteinsdóttir þýddi
List Alice Munro felst ekki síst í því að segja sitthvað án þess raunverulega að segja það. Þýðing Silju Aðalsteinsdóttur á sagnasafninu Lífið að leysa skilar vel tvíræðninni í sögum Munro. Málfar á þýðingunni er skýrt og stílinn áreynslulaus og Silja leysir einkar vel orðaleiki og hálfkveðnar vísur frumtextans.

Náðarstund eftir Hönnuh Kent, Jón St. Kristjánsson þýddi
Náðarstund eftir Hönnuh Kent gerist á Íslandi og segir frá voðaverkunum sem unnin voru á Illugastöðum á Vatnsnesi árið 1828. Þýðing Jóns St. Kristjánssonar færir lesandann aftur í tíma með orðafari sem sjaldan sést í nútímalesmáli og fyrir vikið birtast atburðir þeir sem lýst eru honum ljóslifandi án þess að textinn sé á nokkurn hátt of fornlegur.

Uppfinning Morels eftir Adolfo Bioy Casares í þýðingu Hermanns Stefánssonar
Með þýðingu sinni á Uppfinningu Morels eftir Adolfo Bioy Casares færir Hermann Stefánsson okkur eitt af lykilverkum suðuramerískrar bókmenntasögu. Í þýðingunni fangar Hermann bóklegan svip spænska textans og skilar þannig til okkar andblæ þess tíma er bókin var rituð.

Í dómnefnd voru Árni Matthíasson formaður, María Rán Guðjónsdóttir og Tinna Ásgeirsdóttir og kann Bandalag þýðenda og túlka þeim bestu þakkir fyrir vel leyst og vandasamt starf.

Fjórir af þeim fimm sem tilnefndir eru í ár hafa áður komið við sögu Íslenskau þýðingaverðlaunanna. Gyrðir Elíasson hlaut þau árið 2012 fyrir þýðingu sína á ljóðasafninu Tunglið braust inn í húsið og Silja Aðalsteinsdóttir árið 2007 fyrir þýðingu sína á Wuthering Heights eftir Emily Brontë. Árið 2012 var Jón St. Kristjánsson tilnefndur til verðlaunanna fyrir þýðingu sína á Reisubók Gúllivers eftir Jonathan Swift og Hermann Stefánsson sama ár fyrir Fásinnu eftir Horacio Castellanos Moya. Herdís Hreiðarsdóttir hefur ekki áður gefið út þýðingu en Út í vitann var hluti af meistaraprófsverkefni hennar í þýðingafræði frá Háskóla Íslands árið 2013. Einnig má geta þess að Gyrðir Elíasson var í ár bæði tilnefndur til Íslensku þýðingaverðlaunanna og í fagurbókmenntaflokki Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru þessar:

Í flokki fagurbókmennta:

    Þrír sneru aftur, eftir Guðberg Bergsson
    Koparakur, eftir Gyrði Elíasson
    Kok, eftir Kristínu Eiríksdóttur
    Öræfi, eftir Ófeig Sigurðsson
    Velúr, eftir Þórdísi Gísladóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

    Hljóðin í nóttinni, eftir Björgu Guðrúnu Gísladóttur
    Sveitin í sálinni - Búskapur og ræktun í Reykjavík 1930 til 1970, eftir Eggert Þór Bernharðsson
    Gunnlaugur Halldórsson arkitekt, í ritstjórn Péturs Ármannssonar
    Lífríki Íslands - Vistkerfi lands og sjávar, eftir Snorra Baldursson
    Náttúra ljóðsins - Umhverfi íslenskra skálda, eftir Svein Yngva Egilsson

Í flokki barna- og ungmennabóka:

    Síðasti galdarameistarinn, eftir Ármann Jakobsson
    Hafnfirðingabrandarinn, eftir Bryndísi Björgvinsdóttur
    Nála - Riddarasaga, eftir Evu Þengilsdóttur
    Fuglaþrugl og naflakrafl, eftir Þórarin Eldjárn og Sigrúnu Eldjárn
    Maðurinn sem hataði börn, eftir Þórarinn Leifsson




Sjá einnig frétt RÚV: http://www.ruv.is/frett/gyrdir-med-tvaer-tilnefningar







Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]