13.6.2012 16:28:00
Öndvegisþýðingar
Vert er að vekja hér athygli á fyrirlestraröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur um öndvegisþýðingar. Í gær ræddi Friðrik Rafnsson um þýðingu sína á Óbærilegum léttleika tilverunnar eftir Milan Kundera en um þessar mundir eru tuttugu ár síðan hún kom út. Bókin hefur notið mikilla vinsælda, sem varla telst lakara fyrir þýðanda, enda kveður þar við nýjan tón sem Friðrik sagði að væri samspil fyndni, erótíkur og heimspeki.
Friðrik sagðist í upphafi vera búinn að gleyma helstu vandamálum sem upp komu við þýðingu bókarinnar og lái honum hver sem vill eftir tvo áratugi. Honum tókst þó að grafa upp nokkur áhugaverð atriði. Það var t.d. titillinn sem er jú einkar skemmtilegur og lifir góðu lífi meðal þjóðarinnar. Friðrik sagði frá því hvernig hann hefði velt fyrir sér hvort nota ætti orðið óþolandi eða óbærilegur í titlinum og kvað síðarnefnda orðið hafa orðið ofan á eftir miklar vangaveltur og samræður við yfirlesara. Þar hefði höfundurinn sjálfur lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að lýsa því yfir að hér væri um "fýsísk" þyngsli að ræða. Einnig hafði það sitt að segja að titilinn felur í sér mótsögn og er þá auðvitað átt við hinn óbærilega léttleika.
Friðrik rakti jafnframt aðkomu sína að þessu verki og ánægjulegum samskiptum sínum við höfundinn sem hefur komið til Íslands ásamt konu sinni og hitti þá m.a. Vigdísi Finnbogadóttur, þá miklu frönskumanneskju, en Kundera býr sem kunnugt er í Frakklandi og hefur í seinni tíð skrifað bækur sínar á frönsku. Áður skrifaði hann þær fyrst á tékknesku, þær voru síðan þýddar á frönsku og sú þýðing yfirfarin af höfundi. Friðrik hefur áður sagt frá því hvernig þetta samspil tungumála nýttist Kundera við sköpunarstarfið með því að þýðingin sýndi stundum fram á vissa veikleika í frumtextanum.
Friðrik ræddi einnig almennt um þýðingar og vinnulag sitt. Þess má geta að hannhefur sent frá sér tvær nýjar þýðingar á þessu ári sem mega teljast undraverð afköst í ljósi þess að Friðrik vinnur þýðingar sínar að mestu meðfram öðru starfi. Það er jú á dugnaðarforkum sem þessum sem íslensk menning þrífst.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|