13.6.2012 18:57:00
Tilnefningar til Íslensku þýðingarverðlaunanna

Íslensku þýðingarverðlaunin verða afhent í þriðja sinn á degi bókarinnar, 23. apríl nk. Sem fyrr verður sá háttur hafður á að félagar í Bandalagi þýðenda og túlka tilnefna fimm verk til verðlaunanna og er stefnt að því að atkvæðagreiðslu verði lokið eigi síðar en 1. apríl. Þriggja manna dómnefnd undir formennsku Rúnars Helga Vignissonar, verðlaunahafa síðasta árs, tekur síðan við og velur verðlaunaverkið.

Mikið kom út af öndvegisþýðingum í fyrra og hlutu sumir þýðendurnir þó nokkra athygli fyrir vönduð vinnubrögð. Bæði komu út allmargar þýðingar á sígildum verkum og eins talsvert af glænýjum skáldverkum eftir suma af virtustu höfundum samtímans. Það verður því úr vöndu að ráða fyrir jafnt félagsmenn sem dómnefndina og spennandi að sjá hver hlýtur hnossið að þessu sinni.

Forseti Íslands hefur afhent verðlaunin á Gljúfrasteini hingað til og er stefnt að því að sami háttur verði hafður á í vor.


Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | thot@thot.is