17.7.2012 16:26:00
Kristján Árnason hlýtur Íslensku þýðingaverðlaunin

Kristján Árnason hlaut í gær Íslensku þýðingaverðlaunin sem afhent voru við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini. Verðlaunin fær Kristján fyrir þýðingu sína á Ummyndunum eftir Óvíd.

Eftirtaldir þýðendur voru tilnefndir:

Elísa Björg Þorsteinsdóttir fyrir Málavexti eftir Kate Atkinson (Bjartur)
Guðbergur Bergsson fyrir Öll dagsins glóð, safn portúgalskra ljóða frá 1900–2008 (JPV útgáfa)
Kristján Árnason fyrir Ummyndanir eftir Óvíd (Mál og menning)
María Rán Guðjónsdóttir fyrir Kirkju hafsins eftir Ildefonso Falcones (JPV útgáfa)
Sigurður Karlsson fyrir Yfir hafið og í steininn eftir Tapio Koivukari (Uppheimar)

Í umsögn dómnefndar segir:

„Dómnefndin glímdi við það vandasama hlutverk að velja eina þýðingu úr þessum hópi öndvegisþýðinga og urðu Ummyndanir eftir rómverska skáldið  Óvíd í þýðingu Kristjáns Árnasonar fyrir valinu. Kristján (f. 1934) hefur ort ljóð, þýtt skáldsögur, ljóð og leikrit og skrifað greinar, erindi og ritgerðir um bókmenntir, skáldskaparlist og heimspeki. Hann er allt í senn, ljóðskáld og þýðandi, heimspekingur, kennari og bókmenntafræðingur.

„Dagur mun koma að kveldi og Föbus mun baða lafmóða fáka sína í sjávardjúpunum, áður en ég fái upp talið allt það sem hefur tekið á sig nýja mynd“ (418), segir Óvíd. Hinn forni bókmenntaarfur á latínu hefur öldum saman verið helsta undirstaða menntunar í Evrópu og endalaus uppspretta túlkunar og listsköpunar. Nægir að nefna góðkunningja úr Ummyndunum eins og Orfeif og Evridýku, Andrómedu og Pygmalíon sem dæmi um persónur sem eru í sífelldri mótun og endurnýjun. Kristján Árnason snarar ljóðabálki Óvíds úr löngu útdauðu tungumáli yfir á lifandi og skemmtilegt lausamál og gerir það einkar glæsilega. Hann hefur unnið að þýðingu sinni áratugum saman og verður hún að teljast bæði stórvirki og menningarviðburður. Kristján býr yfir miklum orðaforða, skáldgáfu, innsæi og þekkingu á myndmáli og stíl sem birtist vel í þýðingu hans. Hún er afar læsileg og aðgengileg, það er hægt að grípa niður hvar sem er og sökkva sér ofan í sögur af örlagaglettum hinna fornu guða. Alls staðar eru dæmi um útsjónarsemi og næmi þýðandans fyrir blæbrigðum tungumálsins, bæði frummáls og þýðingar. Af  handahófi má nefna fræg endalok hins sjálfhverfa unglings, Narkissusar, sem málgefna dísin Ekkó elti á röndum:
„En er Narkissus sá þetta í vatninu, sem var nú aftur orðið slétt sem spegill, þá var honum öllum lokið, og svo sem hið gula vax bráðnar af léttum eldi og klaki leysist upp af yl sólarinnar, þannig bráðnaði hann af ást og tærðist upp smám saman af innibyrgðum eldi. Þá hvarf roðinn af björtu hörundi hans, honum þvarr máttur og megin, og fegurð hans bliknaði, sá líkami sem Ekkó hafði unnað svo mjög varð ekki nema svipur hjá sjón“ (106-7).

Kristján hefur með þýðingu sinn á Ummyndunum eftir Óvíd fært nútímalesendum fornklassískan sagnaheim á gullaldaríslensku eða eins og þeir Óvíd orða það (432): Hann hefur „lokið verki sem hvorki bræði Júpíters né eldur né járn né tönn tímans munu fá grandað.““

Dómnefnd skipuðu þau Hjörleifur Sveinbjörnsson, Þórdís Gísladóttir og Steinunn Inga Óttarsdóttir.






Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]