17.7.2012 16:45:00
Ingunn A. Ingólfsdóttir og Jón O. Edwald heiðruð
Jón O. Edwald og Ingunn A. Ingólfsdóttir voru í dag, 30. september, heiðruð fyrir brautryðjendastörf á sviði sjónvarps- og kvikmyndaþýðinga.
Í dag, á alþjóðadegi þýðenda, 30. september, heiðraði Bandalag þýðenda og túlka tvo þýðendur úr röðum sjónvarps- og kvikmyndaþýðenda, þau Jón O. Edwald og Ingunni A. Ingólfsdóttur, fyrir brautryðjendastörf á þessu sviði.
Ingunn A. Ingólfsdóttir hefur þýtt fyrir Stöð 2 frá upphafi og var farin að þýða dagskrárefni áður en stöðin fór í loftið í október 1986. Ingunn er jafnvíg á nánast hvaða efni sem er og hefur hún tekið að sér margskonar þáttaraðir en góðir spennuþættir eru hennar uppáhald. Meðal þáttaraða sem hún hefur þýtt má nefna Tvídranga (Twin Peaks), Morðgátu (Murder She Wrote) og 24, svo fáeinir séu nefndir. Auk þess hefur hún þýtt hundruð bíómynda. Ingunn þýðir einkum úr ensku og frönsku.
Það var samdóma álit valnefndarmanna að þýðingar hennar væru ákaflega liprar og vandaðar og að hún væri lagin við að finna góðar þýðingarlausnir við vinnslu tyrfinna texta því orðaforði Íslendinga getur verið mjög takmarkaður þegar kemur að hugtökum í njósnum og á ýmsum öðrum sviðum.
Jón O. Edwald byrjaði að þýða texta og þulartexta við sjónvarpsmyndir á fyrstu árum Sjónvarpsins. Smám saman varð hann aðalþýðandi þess á hvers konar raunvísindaefni og hefur á 40 ára ferli sínum sem sjónvarpsþýðandi þýtt mikinn fjölda mynda og myndaflokka um náttúrulíf, eðlis- og efnafræði og alhliða fræðsluþætti eins og dönsku þáttaröðina Viden om eða Veistu svarið? og þáttaröðina BBC Blue Planet eða Hafið bláa hafið sem David Attenborough stýrði og sýnd var við mikla hrifningu árið 2002 og aftur árið 2003.
Auk þess hefur Jón þýtt eina bíómynd á mánuði eða svo á ferli sínum og skipta þær nú hundruðum. Þá hefur hann einnig þýtt leikna myndaflokka, ekki síst norræna, síðast dönsku þáttaröðina Lansinn eftir Lars von Trier en hann gerist einmitt á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn þar sem Jón stundaði verklegt lyfjafræðinám á sínum tíma. Jón er líklega elsti sjónvarpsþýðandi landsins en hann varð 85 ára fyrr á þessu ári.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|