23.4.2016 18:38:00
Brynja Cortes Andrésdóttir hlýtur Íslensku þýðingaverðlaunin


Í dag, 23. apríl 2016, voru Íslensku þýðingaverðlaunin veitt við hátíðlega athöfn í Hannesarholti. Verðlaunin veitti forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, en þau hlaut Brynja Cortes Andrésdóttir fyrir þýðingu sína á Ef að vetrarnóttu ferðalangur eftir Italo Calvino. Útgefandi er Ugla.

Í umsögn dómnefndar um þýðinguna segir:
Ef að vetrarnóttu ferðalangur er póstmódernískt ævintýri þar sem Italo Calvino leikur sér með lesandann og gerir hann að hetju í bók sem fjallar um lestur bóka, sem er skáldskapur um skáldskapinn. Þýðing Brynju Cortes Andrésdóttur er leikandi og ljóðræn og skilar afbragðsvel tærum og lifandi stíl Calvino.

Aðrir tilnefndir voru Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson fyrir bókina Nýsnævi – safn ljóðaþýðinga eftir 15 höfunda, útgefandi Dimma;  Ásdís R. Magnúsdóttir fyrir bókina Rangan og réttan – þrjú ritgerðarsöfn eftir Albert Camus,  úgefandi Háskólaútgáfan;  Jón Hallur Stefánsson fyrir bókina Spámennirnir í Botnleysufirði eftir Kim Leine,  útgefandi Bókaútgáfan Sæmundur; og Silja Aðalsteinsdóttir fyrir Grimmsævintýri, Philip Pullman tók saman og endursagði, útgefandi Mál og menning.

Í dómnefnd sátu Árni Matthíasson, formaður, María Rán Guðjónsdóttir og Tinna Ásgeirsdóttir.

Bandalag þýðenda og túlka hefur veitt Íslensku þýðingaverðlaunin frá árinu 2005 á alþjóðlegum degi bókarinnar. Til verðlaunanna var stofnað í því skyni að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskrar menningar.

Myndin var tekin af þessu tilefni, en á henni eru Brynja Cortes Andrésdóttir og útgefandi hennar, Jakob F. Ásgeirsson.



Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]