18.6.2012 20:50:00
Fjölbreyttir og fræðandi fyrirlestrar á afmælisþinginu
- stutt samantekt eftir Rúnar Helga Vignisson
Sem kunnugt er hélt Bandalag þýðenda og túlka upp á fimm ára afmæli sitt með þingi á Þjóðminjasafninu 30. september sl. Rúnar Helgi Vignisson, formaður Bandalagsins, setti þingið, rakti sögu þess og helstu starfsþætti, benti á að við værum meira og minna uppalin af þýðendum og gaf síðan Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra orðið.
Katrín skemmti áheyrendum með sögum af þýðingamistökum og sagði frá þýddum bókum sem hún hefði haldið sérstaklega upp á í æsku. Hún lýsti þeirri skoðun sinni, og studdist þá við málstefnu sem Alþingi hefur samþykkt, að Íslendingar ættu að geta lesið sem flest á móðurmálinu, þar á meðal gögn frá ESB, og lagði áherslu á vægi menntunar þýðenda.
Hólmfríður Matthíasdóttir, frá réttindaskrifstofu Forlagsins, ræddi um gæði bókmenntaþýðinga. Hún reifaði málið frá ýmsum hliðum og tók m.a. dæmi af íslenskum bókum sem hefðu verið þýddar á önnur tungumál með misjöfnum árangri. Lýsti hún þeirri skoðun sinni að ef þýðendur fylgdu frumgerðinni of grannt væri hætta á að þýðingin yrði líflaus og óeðlileg. Hún sagði að sumir útgefendur, einkum erlendis, hefðu freistast til að spara kostnað með því að sleppa yfirlestri og kæmi það óneitanlega niður á gæðum þýðinganna. Hér er fyrirlestur Hólmfríðar.
Gunnhildur Stefánsdóttir, forstöðumaður Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins, fræddi viðstadda um það mikla starf sem þar er unnið við að þýða skjöl er tengjast aðild Íslands að EES. Lýsti hún vinnuferli þar og gerði grein fyrir þeim ströngu kröfum sem gerðar væru til nákvæmni og samræmis í þýðingum. Ennfremur kynnti hún hugtakasafn miðstöðvarinnar auk annarra tóla og tækja sem þýðendurnir hefðu aðgang að. Sjá vefsíðu Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins.
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir rakti ýmis vandkvæði sem upp hefðu komið við þýðingu bókar á nýju fræðasviði. Hún hefur nýlokið við að þýða bók um loftslagsbreytingar þar sem hún þurfti að glíma við hugtök sem ekki voru til á íslensku. Ræddi hún m.a. hve mikils virði samstarf við sérfræðinga sem tengdust fræðasviði bókarinnar væri og þá ekki síður samstarfið við yfirlesara hjá forlaginu. Hér má sjá glærur Ingibjargar.
Paul Richardson ræddi um þýðingarminni, þ.e. þýðingalausnir sem safnast í gagnabanka fyrir tilstilli þýðingarforrita, og reifaði hugmyndir sínar um að deila þeim í gegnum netið til annarra þýðenda. Þó að sumum þætti eitt og annað svolítið flókið í máli Pauls lýstu menn áhuga á að fá námskeið um mál þessi enda ljóst að spara má mikinn tíma og fyrirhöfn með því að nýta tæknina á þennan hátt. Paul notaði svokallað hugkort fyrir minnispunkta sína. Hér er tengill í minnispunkta frá honum.
Og hér má nálgast upplýsingar um opinn hugbúnað og væntanlegt námskeið með Paul.
Seinni hluti þingsins var helgaður Evrópumálum. Fyrst kom Gauti Kristmannsson, dósent í þýðingafræðum við HÍ, og ræddi um menntun þýðenda og túlka ef til Evrópusambandsaðildar kæmi. Gauti benti á að hjá Evrópusambandinu væru öll tungumál jafngild, það væri hornsteinn lýðræðishugsunar ESB. Aðild að sambandinu, með öllum þeim þýðingum af og á íslensku sem það kallaði á, yrði því gríðarleg innspýting fyrir íslenska tungu. Hann ræddi síðan um menntunarmál í tengslum við aðild og benti á að tímafrekt væri að mennta túlka og því þyrfti að hefjast handa sem fyrst.
Hér má sjá glærur Gauta. Og hér má nálgast erindi Gauta.
Í kjölfar Gauta talaði Klaus Ahrend, forstöðumaður útvistunarmála hjá þýðingamiðstöð framkvæmdastjórnar ESB í Brüssel. Klaus lýsti umfangi þýðingastarfsemi ESB, gat þess m.a. að hjá stofnun sinni störfuðu 1750 fastráðnir þýðendur sem þýddu á milli 23 tungumála. Auk fastráðinna þýðenda starfa fjölmargir lausráðnir þýðendur fyrir framkvæmdastjórnina og fá þeir að glíma við plögg sem ekki teljast trúnaðarmál. Áætlaði Klaus að til útvistunar á Íslandi kæmu 11 til 16 þúsund síður á ári en ESB skilgreinir síðu sem 1500 slög án bila. Fundarmenn voru áhugasamir um það sem Klaus hafði fram að færa og greinilegt að þeir sáu þarna mikil tækifæri. Sjá glærur frá Klaus hér.
Sjá vefsíðu Þýðingamiðstöðvar Evrópusambandsins.
Netfangið hjá Klaus Ahrend er: [email protected].
Hér má lesa frétt um þingið á student.is.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|