23.11.2015 00:50:00
Ísnálin afhent á glæpakvöldi Hins íslenska glæpafélags
Glæpakvöld Hins íslenska glæpafélags verður haldið á Sólon fimmtudaginn 26. nóvember. Húsið opnar klukkan 20 með hljóðfæraleik sem Refur og félagar annast en dagskrá hefst klukkan 20.30.
Fyrsta atriðið á dagskránni verður kynning á þýðingum glæpasagna sem tilnefndar voru til Ísnálarinnar sem er samstarfsverkefni Iceland Noir glæpasagnahátíðinnar, Hins íslenska glæpafélags og Bandalags þýðenda og túlka.
Þá lesa nokkrir höfundar glæpasagna ársins úr verkum sínum.
Tilnefningar til Ísnálarinnar (The IcePick) 2015 voru kynntar á afmælisdegi Raymonds Chandler, 23. júlí, en hann er höfundur einnar af þekktustu glæpasögum allra tíma þar sem sem ísnál er notuð sem morðvopn.
Þessi verk eru tilnefnd til Ísnálar 2015:
Afturgangan (Gjenferd) eftir Jo Nesbø í þýðingu Bjarna Gunnarssonar. (Útg. JPV útgáfa).
Alex (Alex) eftir Pierre Lemaitre í þýðingu Friðriks Rafnssonar. (Útg. JPV útgáfa).
Blóð í snjónum (Blod på snø) eftir Jo Nesbø í þýðingu Bjarna Gunnarssonar. (Útg. JPV útgáfa.
Konan í lestinni (The Girl on the Train) eftir Paulu Hawkins í þýðingu Bjarna Jónssonar. (Útg. Bjartur).
Syndlaus (I grunden utan skuld) eftir Vivecu Sten í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur. (Útg. Ugla).
Þetta er annað árið sem verðlaunin verða veitt en að þeim standa Iceland Noir glæpasagnahátíðin, Hið íslenska glæpafélag og Bandalag þýðenda og túlka. Dómnefnd skipuðu Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Bergþórsdóttir, Magnea J. Matthíasdóttir, Quentin Bates og Ragnar Jónasson.
Eftir hlé verður gert kunnugt hver hlýtur Ísnálina fyrir bestu þýðingu ársins. Síðan lesa aðrir höfundar glæpasagna ársins úr verkum sínum.
Glæpasögur ársins 2015:
Arnaldur Indriðason, Þýska húsið, Vaka Helgafell.
Ágúst Borgþór Sverrisson, Myrkrið, Draumsýn.
Guðrún Guðlaugsdóttir, Blaðamaður deyr, GPS.
Lilja Sigurðardóttir, Gildran, JPV.
Óskar Guðmundsson, Hilma, Draumsýn.
Ragnar Jónasson, Dimma, Veröld.
Sólveig Pálsdóttir, Flekklaus, JPV.
Stefán Máni, Nautið, Sögur útgáfa.
Stella Blómkvist, Morðin í Skálholti, Forlagið.
Yrsa Sigurðardóttir, Sogið, Veröld.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|