18.6.2012 19:59:00
Spennan eykst
Íslensku þýðingarverðlaunin afhent á morgun
Nú styttist óðum í að Íslensku þýðingarverðlaunin verði afhent í fimmta sinn. Það verður gert á Gljúfrasteini sumardaginn fyrsta, á degi bókarinnar.
Dómnefnd var skipuð þegar sl. haust og vann hún samviskusamlega að því að kemba sérlega fagurgræna og frjósama flóru þýðinga hvaðanæva úr heiminum. Niðurstaðan varð að tilnefna fimm bækur og sex þýðendur til verðlaunanna að þessu sinni. Þar kennir ýmissa grasa eins og fram hefur komið á síðunni en til upprifjunar birtum við hér listann aftur:
Árni Óskarsson er tilnefndur fyrir þýðingu sína á skáldsögunni Nafn mitt er rauður eftir Orhan Pamuk.
Erla Erlendsdóttir og Kristín Guðrún Jónsdóttir eru tilnefndar fyrir Svo fagurgrænar og frjósamar, smásögur frá Kúbu, Púertó Ríkó og Dóminíska lýðveldinu.
Guðrún Vilmundardóttir er tilnefnd fyrir skáldsöguna Í þokunni eftir Philippe Claudel.
Hjörleifur Sveinbjörnsson er tilnefndur fyrir bókina Apakóngur á silkiveginum, sýnisbók kínverskrar frásagnarlistar frá fyrri öldum.
Sölvi Björn Sigurðsson er tilnefndur fyrir ljóðabókina Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud.
Hér eru þekktir þýðendur í bland við þá sem eru nýkomnir fram á sjónarsviðið og eru greinilega á vetur setjandi að mati dómnefndar. Í fyrra var það einmitt ungur þýðandi, Eiríkur Örn Norðdahl, sem hreppti verðlaunin. Við munum að sjálfsögðu greina ykkur skilmerkilega frá niðurstöðunni undireins og hún liggur fyrir.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|