13.6.2012 16:27:00
Titlar mikið ræddir á Þýðingahlaðborðinu

Þýðingahlaðborðið í gær var afar vel heppnað þó að næðið hefði reyndar mátt vera betra á Kaffi Óliver. En hlaðborðið var vel sótt og þýðendurnir sem fram komu voru mjög vel undirbúnir. Allir ræddu þeir um bækurnar og þýðingarvinnuna og var það mjög gefandi umræða enda sjónarhorn þýðenda á verkin sem þeir þýða einstakt.

Titlar urðu nokkurs konar leiðarhnoða á hlaðborðinu því þrír af þýðendunum ræddu sérstaklega um titlana sem þeir völdu á þýðingar sínar en þeir eru jú iðulega afar erfiðir viðureignar. Silja Aðalsteinsdóttir upplýsti t.d. að ýmsir hefðu komið að máli við sig vegna þess að hún kallar sína þýðingu Wuthering Heights. Upplýsti Silja að ástæða þess væri sú að um sérnafn væri að ræða. Jón Karl Helgason ræddi einnig um glímu sína við titilinn á Brooklyn Follies eftir Paul Auster en hann endaði á að kalla bókina Brestir í Brooklyn. Þá steig Ástráður Eysteinsson einnig á stokk og útskýrði hvers vegna þeir feðgar (hann og Eysteinn Þorvaldsson) hefðu ákveðið að kalla sína þýðingu á hinu fræga verki Kafka Umskiptin en ekki Hamskiptin eins og Hannes Pétursson gerði á sínum tíma. Það er athyglisvert að þeir feðgar skuli ráðast í að þýða þessa bók aftur og það sem meira er, þýðingin er birt ásamt frumtextanum.

Fríða Björk Ingvarsdóttir sá hins vegar ekki ástæðu til þess að ræða titilinn á Dætrum hússins enda liggur hann nokkuð beint við. Hún ræddi hins vegar um það hvernig höfundurinn vinnur með mörk tungumála og menningarheima í verki sínu. Fríða Björk las kafla sem gerist í hafi og kristallar viðfangsefnið. Loks tók Ólöf Eldjárn við keflinu og kynnti þýðingu sína á hinu mikla verki Undantekningin. Ólöf gat þess m.a. að höfundurinn nýtti sér eiginleika spennusögunnar með þeim árangri að lesandinn væri sem límdur við síðurnar. Í máli hennar og lestri kom margt athyglisvert fram um þjóðarmorð á þessari blessuðu jarðarkringlu okkar.

Þetta var í þriðja skipti sem Þýðingahlaðborðið er haldið á vegum Bandalags þýðenda og túlka og þykir okkur sýnt að það er að festa sig í sessi sem ein athyglisverðasta uppákoman á jólabókavertíðinni. Þarna gefst tilheyrendum kostur á allt öðruvísi sjónarhorni á jólabækurnar og heimsbókmenntirnar.



Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]