18.6.2012 20:40:00
Fimm ára afmæli Bandalags þýðenda og túlka í dag, 30. sept.

Minnum á afmælisþingið í Þjóðminjasafninu klukkan eitt

Við viljum minna ykkur á að við eigum fimm ára afmæli í dag og vonumst til að sjá sem flesta í veislunni okkar, afmælisþingi sem haldið verður í Þjóðminjasafninu frá eitt til fimm í dag.

Hér má sjá dagskrána (sem hefur breyst örlítið vegna veikinda) og nánari upplýsingar um fyrirlesara og erindi þeirra. Auk neðangreindra mun Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra heiðra samkomuna með með nærveru sinni.

Dagskrá (athugið breytingu):

13:00 Setning: Rúnar Helgi Vignisson, formaður Bandalags þýðenda og túlka.
13:10 Ávarp: Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra.
13:25 Hólmfríður Matthíasdóttir: Gæði bókmenntaþýðinga.
13:50 (Ath. breytingu á dagskrá.) Gunnhildur Stefánsdóttir forstöðumaður kynnir Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins.
14:15 Ingibjörg Elsa Björnsdóttir: Að takast á við hugtök á nýju fræðasviði - þýðing á fræðsluriti um loftslagsbreytingar.
14:40 Paul Richardson: Þýðingarminni: að deila þekkingu.
15:10 Kaffihlé
15:40 Gauti Kristmannsson: Menntun þýðenda og túlka í ljósi Evrópusambandsumsóknar.
16:05 Klaus Ahrend, frá þýðingamiðstöð Evrópusambandsins: Þýðendur og Evrópusambandið. ("Translation outsourcing at the European Commission". Erindi flutt á ensku.)

Allir eru velkomnir.

Upplýsingar um fyrirlesara og erindi á afmælisþingi Bandalags þýðenda og  túlka

Gauti Kristmannsson lauk doktorsprófi í þýðingafræðum við túlka- og þýðendadeild Johannes Gutenberg-háskólans í Mainz/Germersheim árið 2001. Hann hefur stundað þýðingar frá árinu 1980, varð löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi 1987 og hefur kennt þýðingafræði við Háskóla Íslands frá 2000 og er núna dósent við þann sama skóla. Hann er greinarformaður þýðingafræðináms við HÍ og forstöðumaður Þýðingaseturs HÍ sem er innan vébanda Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Erindi Gauta nefnist: Menntun þýðenda og túlka í ljósi Evrópusambandsumsóknar. Útdráttur: Umsókn um aðild að Evrópusambandinu hefur mikil áhrif á þýðingar og túlkun á Íslandi, eins og sjá má nýráðningum Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins og deilum um þýðingar á spurningunum sem ESB sendi inn fyrir skömmu. Íslendingar munu þá kynnast nýjum viðhorfum til tungumála og að enska er ekkert sjálfgefin í þeim samskiptum. Umsóknin ein mun kalla á umtalsverða viðbót við þýðingar og túlkun í landinu og mun þess vafalaust sjá merki á markaði, sem og í eftirspurn eftir hæfu fólki. Háskóli Íslands hefur um árabil kennt þýðingar og túlkun, en við þessar miklu breytingar ríður á að brugðist verði svo að ekki verði skortur á þýðendum og túlkum í landinu. Það hefur líka sýnt sig að oft getur verið betra að hafa færa sérfræðinga á þessu sviði þegar verið er að kljást um viðkvæm mál því fátt er eins ofmetið og enskukunnátta Íslendinga.

Hólmfríður Matthíasdóttir nam bókmenntafræði og spænsku við Háskólann í Barcelona. Hún hefur starfað við bókaútgáfu í fjölda ára, sem útgáfustjóri og í tengslum við höfundaréttindi, fyrst í meira en áratug við útgáfufyrirtæki á Spáni og síðar á Íslandi. Hólmfríður er forstöðumaður Réttindastofu Forlagsins.

Erindi hennar nefnist Gæði bókmenntaþýðinga. Útdráttur: Þýðingar eru allt umhverfis okkur og taka þátt í því að tengja Ísland við umheiminn. Þýðing bókmenntaverka er oft á tíðum eina mögulega nálgun lesandans á verk erlendra höfunda. Því er afar mikilvægt að vandað sé til verka, bæði af hálfu þýðenda og útgefanda. Farið verður stuttlega yfir ýmis algeng vandamál og rætt um þýðingar á bókum íslenskra höfunda yfir á erlend tungumál.

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir er fædd í Edinborg, Skotlandi, en alin upp á Íslandi. Hún er með með meistaragráðu M.Sc. í umhverfisefnafræði en stundar nú nám á meistarastigi í þýðingarfræði við Háskóla Íslands.

Erindi hennar nefnist: Að takast á við hugtök á nýju fræðasviði. Hún mun hún fjalla um þýðingu sína á bók norska blaðamannsins Ole Mathismoen um loftslagsbreytingar. Bókin var gefin út í Noregi árið 2007 og fékk þar verðlaun í hópi fræði- og fræðslurita. Um er að ræða verk með fjölda nýlegra hugtaka- og fræðiheita sem sum hver hafa einungis verið tekin í notkun á Íslandi á síðustu árum. Bókin gefur því tilefni til umræðu út frá sjónarhóli þýðandans um eðli þýðinga, þýðingarferlið og spurningunni er varpað fram, hvort að gjá hafi myndast á milli orðaforða vísindanna annars vegar og hinnar almennu íslensku hins vegar.

Klaus Ahrend er fæddur í Dortmund í Þýskalandi. Hann nam þýðingafræði  við háskólann í Hildesheim og hefur unnið hjá Directorate-Gerneral for Translation (Þýðingamiðstöð Evrópusambandsins) frá 1991. Hann er nú yfirmaður útvistunarmála hjá miðstöðinni.

Erindi hans nefnist: "Translation outsourcing at the European Commission" og verður flutt á ensku.

Paul Richardson vann við enskukennslu og þýðingar, svo við atvinnuþróun, fyrst í  ferðaþjónustu sem framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda og svo með þátttöku og ráðgjöf í Evrópuverkefnum ásamt því að vera í meistaranámi í tölvunarfræði í HÍ. Nú vinnur hann  aðallega við þýðingar.

Erindi hans snýst um leiðir til þess að bæta gæði og hagkvæmni í þýðingum með því að deila þýðingarminni milli þýðenda. Aðaltillaga er að smiða og birta sérhæfð þýðingarminni fyrir þýðingar úr og á ensku sem eru opin öllum.

Því miður fellur erindi Ellenar Ingvadóttur niður vegna veikinda. Í staðinn mun Gunnhildur Stefánsdóttir kynna Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins. Hún er forstöðumaður þýðingamiðstöðvarinnar.

Nánari upplýsingar veitir Rúnar Helgi Vignisson, í síma  895 7538 .





Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]