23.4.2015 14:31:00
Verðlaun fyrir bestu þýddu barnabókina

Vika bókarinnar hófst 22. apríl með því að reykvísk fræðsluyfirvöld veittu barnabókaverðlaun sín fyrir árið 2015. Besta þýdda barnabókin var valin Eleanor og Park eftir bandaríska rithöfundinn Rainbow Rowell í þýðingu Birgittu Elínar Hassel og Mörtu Hlínar Magnadóttur en besta frumsamda barnabókin var Hafnfirðingabrandarinn  eftir Bryndísi Björgvinsdóttur. Verðlaunin voru afhent í Höfða og voru nú veitt í 34. sinn.

Á vef Reykjavíkurborgar segir:
"Í umsögn um þýðingu unglingabókarinnar Eleanor og Park  segir m.a. :
Eleanor og Park hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga erlendis og dýrmætt þegar slíkar bækur rata inn í íslenskt málsamfélag og verða hluti af því. Það er vandaverk að skrifa bók í nútímanum fyrir nútímaunglinga á trúverðugu orðfæri unglinga fyrir tuttugu árum á þann hátt að textinn virki hvorki framandi né klisjukenndur. Þegar bætist svo í ofanálag að þýða sama texta yfir á annað tungumál verður málið enn snúnara. Þeim Mörtu Hlín Magnadóttur og Birgittu Elínu Hassell tekst einstaklega vel að ná þessu takmarki án þess að það sé á kostnað læsileika og flæðis textans."

Marta Hlín Magnadóttir var fjarstodd en Birgitta Elín Hassel tók við verðlaununum fyrir hönd þýðendanna og hélt stutt ávarp. Hún þakkaði fyrir heiðurinn og sagði svo:

"Ég vil taka undir orð þeirra sem hafa talað hér á undan mér að verðlaun sem þessi eru mikilvæg til að auka veg barna- og unglingabókmennta.

Það er brýn þörf á að vekja athygli á bókum á íslensku fyrir þennan lesendahóp, bæði frumsömdum og þýddum, og gera þær að áhugaverðum og áberandi valkosti innan um aðra afþreyingu. Börn og unglingar vilja lesa það sem er vinsælt og áberandi hjá öðrum þjóðum, sérstaklega enskumælandi, og því afar mikilvægt að þýða þær bækur, fljótt og vel, á vandaða og góða íslensku. Þannig getur alltaf verið fyrsta val að lesa á íslensku og annað val að lesa á öðrum tungumálum.

Við Marta fögnum því þessum verðlaunum ekki bara sem þýðendur – sem lögðu líf og sál í að þýða þessa dásamlegu sögu – heldur líka sem útgefendur sem leggja sig fram við að finna og velja bækur sem við teljum að höfði til og heilli íslensk ungmenni."

Bandalag þýðenda og túlka tekur heilshugar undir orð Birgittu um mikilvægi góðra þýðinga fyrir börn og ungmenni og óskar Birgittu og Mörtu innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Myndin er fengin að láni á vef Reykjavíkurborgar og sýnir verðlaunahafa.






 





Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]