23.11.2014 20:52:00
Ísnálin veitt í fyrsta sinn
Ísnálin (The Icepick), Iceland Noir verðlaunin fyrir bestu þýddu glæpasöguna á Íslandi 2014, voru veitt í fyrsta sinn í kvöldverðarveislu glæpasagnahátíðarinnar í gær. 22. nóvember. Ísnálina hlutu Friðrik Rafnsson þýðandi og Joël Dicker fyrir bókina Sannleikurinn um mál Harrys Quebert (La Vérité sur l’affaire Harry Quebert). Friðrik Rafnsson er íslenskum lesendum að góðu kunnur fyrir fjölmargar þýðingar sínar og var tilnefndur til Íslensku þýðingaverðlaunanna átið 2008 fyrir þýðingu sína á Brandaranum eftir Milan Kundera.
Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir: Óvenjuleg söguhetja flækist í morðgátu sem kemur stöðugt á óvart og heldur athygli í sjöhundruð blaðsíður; skemmtilega uppbyggð bók í vandaðri þýðingu.
Aðrar tilnefndar bækur voru Að gæta bróður míns (Veljeni vartija) eftir Antti Tuomainen í þýðingu Sigurðar Karlssonar; Brynhjarta (Panserhjerte) eftir Jo Nesbø, Bjarni Gunnarsson þýddi; Hún er horfin (Gone Girl) eftir Gillian Flynn í þýðingu Bjarna Jónssonar og Manneskja án hunds (Människa utan hund) eftir Håkan Nesser í þýðingu Ævars Arnar Jósepssonar. Hér má sjá meira um tilnefndu bækurnar og verðlaunin.
Að verðlaununum standa glæpasagnahátíðin Iceland Noir, Bandalag þýðenda og túlka og Hið íslenska glæpafélag en í dómnefnd sátu Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður og bókmenntagagnrýnandi, Magnea J. Matthíasdóttir, þýðandi og formaður Bandalags þýðenda og túlka, Quentin Bates, rithöfundur og þýðandi, og Ragnar Jónasson, rithöfundur og þýðandi.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|