16.3.2015 15:10:00
Notaleg fimmtudagskvöld: Upplestur og þýðingaspjall
Bandalag þýðenda og túlka efnir til tveggja upplestrarkvölda til að rifja upp fyrir áhugasömum bókmenntaunnendum þær fimm framúrskarandi þýðingar sem eru tilnefndar til Íslensku þýðingaverðlaunanna 2015. Auk upplestra gefst áheyrendum tækifæri til að spjalla við þýðendur um tilnefndu verkin, þýðinguna sjálfa og þýðendastarfið.
Upplestrarnir verða haldnir í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, fimmtudagana 19. og 26. mars og hefjast kl. 20. Aðgangseyrir er enginn og allir eru hjartanlega velkomnir.
Bókmenntaverkin eru víða að og af ýmsu tagi, ljóð, smásögur og skáldsögur, og dagskrá verður sem hér segir:
19. mars
• Hermann Stefánsson les úr þýðingu sinni Uppfinning Morles eftir Adolfo Bioy Casares.
„Með þýðingu sinni á Uppfinningu Morels eftir Adolfo Bioy Casares færir Hermann Stefánsson okkur eitt af lykilverkum suðuramerískrar bókmenntasögu. Í þýðingunni fangar Hermann bóklegan svip spænska textans og skilar þannig til okkar andblæ þess tíma er bókin var rituð.“
• Jón St. Kristjánsson les úr þýðingu sinni Náðarstund eftir Hönnuh Kent.
„Náðarstund eftir Hönnuh Kent gerist á Íslandi og segir frá voðaverkunum sem unnin voru á Illugastöðum á Vatnsnesi árið 1828. Þýðing Jóns St. Kristjánssonar færir lesandann aftur í tíma með orðafari sem sjaldan sést í nútímalesmáli og fyrir vikið birtast atburðir þeir sem lýst eru honum ljóslifandi án þess að textinn sé á nokkurn hátt of fornlegur.“
• Silja Aðalsteinsdóttir les úr þýðingu sinni Lífið að leysa eftir Alice Munro.
„List Alice Munro felst ekki síst í því að segja sitthvað án þess raunverulega að segja það. Þýðing Silju Aðalsteinsdóttur á sagnasafninu Lífið að leysa skilar vel tvíræðninni í sögum Munro. Málfar á þýðingunni er skýrt og stíllinn áreynslulaus og Silja leysir einkar vel orðaleiki og hálfkveðnar vísur frumtextans.“
26. mars
• Gyrðir Elíasson les úr þýðingu sinni Listin að vera einn eftir Shuntaro Tanikawa.
„Með þýðingu sinni á ljóðum Shuntaro Tanikawa kynnir Gyrðir Elíasson okkur eitt helsta núlifandi skáld Japana. Tanikawa er meðal annars þekktur fyrir glímu sína við tungumálið og það hvernig hann teygir það og togar, en þó þykir texti hans tær og virðist áreynslulaus líkt og skilar sér í þýðingum Gyrðis á ljóðunum.“
• Herdís Hreiðarsdóttir les úr þýðingu sinni Út í vitann eftir Virginiu Woolf.
„Út í vitann er lykilbók í höfundarverki Virginiu Woolf og eitt af meginverkum vestrænna bókmennta, skrifað í vitundarstreymi þar sem hefðbundin setningaskipan er brotin upp til að líkja eftir hugsun mannsins. Það er ekki áhlaupaverk að þýða slíka bók en Herdís Hreiðarsdóttir leysir það afburðavel. Hún leggur sig meðal annars eftir því að halda setninga- og greinarmerkjaskipan sem næst því sem háttar í frumtextanum og skilar þannig einu af lykilatriðum textans, án þess að glata flæði hans.“
Íslensku þýðingaverðlaunin verða veitt venju samkvæmt á Gljúfrasteini á Degi bókarinnar, 23. apríl næstkomandi.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|