23.7.2016 11:30:00
Hver vinnur þriðju Ísnálina?
Tilnefningar liggja nú fyrir í þriðja sinn til Ísnálarinnar (The IcePick), verðlauna fyrir bestu þýddu glæpasögu á íslensku. Verðlaunin eru veitt í tengslum við Iceland Noir glæpasagnahátíðina, sem haldin er annað hvert ár í Reykjavík, nú dagana 17.-20. nóvember 2016.
Tilnefningar til Ísnálarinnar eru venju samkvæmt kynntar á afmælisdegi Raymonds Chandlers, en eins og glæpasagnaáhugafólk veit skrifaði hann eina af þekktustu glæpasögum allra tíma þar sem ísnál er morðvopnið. Ekkert er látið uppi um það hvort ísnál kemur við sögu í bókunum fimm sem tilnefndar eru til verðlauna í ár en þær eru þessar:
• Hin myrku djúp eftir Ann Cleeves; þýðandi Þórdís Bachmann. Útg. Ugla.
• Konan í myrkrinu eftir Marion Pauw; þýðandi Ragna Sigurðardóttir. Útg. Veröld.
• Kólibrímorðin eftir Kati Hiekkapelto; þýðandi Sigurður Karlsson. Útg. Skrudda.
• Meira blóð eftir Jo Nesbö; þýðandi Bjarni Gunnarsson. Útg. JPV.
• Sjöunda barnið eftir Erik Valeur; þýðandi Eiríkur Brynjólfsson. Útg. Draumsýn.
Að Ísnálinni standa Iceland Noir glæpasagnahátíðin, Hið íslenska glæpafélag og Bandalag þýðenda og túlka. Dómnefnd skipuðu Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Bergþórsdóttir, Magnea J. Matthíasdóttir, Quentin Bates og Ragnar Jónasson.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|