17.7.2012 16:06:00
Art in Translation: International conference on language and the arts

- 27.-29. maí 2010 í Háskóla Íslands og Norræna húsinu

Art in Translation: International conference on language and the arts
University of Iceland and the Nordic House
May 27–29, 2010

Á síðustu árum hafa Íslendingar orðið virkari þátttakendur í alþjóðlegum listheimi. Á sama tíma hafa Íslendingar, eins og svo mörg önnur lítil málsamfélög, tekið upp ensku sem órjúfanlegan þátt í sköpun og útrás á list sinni. Það lítur út fyrir að slíkt sé óumflýjanlegt þar sem enska er eitt hið mest ráðandi tungumál í listheiminum í dag. En hverjar eru afleiðingar þess fyrir minni málsamfélög að þurfa að þýða listina yfir á annað tungumál? Og hvaða áhrif hefur þýdd list á málsamfélög ríkjandi tungumála?

Tilgangurinn með ráðstefnunni er að leitast við að svara spurningum um hvernig þýðing á orðræðu í listheiminum hefur áhrif á framleiðslu, viðtöku og túlkun á ýmiskonar list; svo sem í tónlist, kvikmyndum og bókmenntum. Nú kallar nefndin eftir fyrirlestrum frá fræðimönnum, atvinnumönnum í listum og fólki úr háskólasamfélaginu frá sem flestum greinum (myndlist, tónlist, kvikmyndafræðum, málfræði, þýðingarfræði, mannfræði, menningarfræði, fagurfræði, bókmenntafræði, heimspeki og öðrum skyldum greinum). Einnig er kallað eftir hugmyndum frá starfandi listamönnum, tónlistarmönnum, rithöfundum, sviðslistamönnum og kvikmyndagerðarmönnum, hvort sem þau eru í formi fyrirlesturs eða framsetningar með öðrum hætti.

Inngangsfyrirlesari á ráðstefnunni verður Guðbergur Bergsson, rithöfundur. Íslensk-kanadíski kvikmyndagerðarmaðurinn Guy Maddin mun einnig halda erindi. Til viðbótar við erindið mun hann sýna kvikmynd sína frá árinu 1988; Tales from the Gimli Hospital.

Hvernig sækja á um:
Innsendar tillögur að fyrirlestrum ættu ekki að vera lengri en 500 orð. Allar tillögur þurfa að innihalda nafn fyrirlesara, stöðu hennar/hans (allar starfs- og námsgreinar verða teknar til greina), heimilisfang, símanúmer og netfang. Fyrirlestrarnir sjálfir ættu að vera um 20 mínútur að lengd. Allir fyrirlestrar fara fram á ensku og því biðjum við vinsamlegast um að innsendar tillögur verði einnig skrifaðar á því tungumáli.

Möguleg umfjöllunarefni (þetta eru einungis tillögur og ekki tæmandi listi):
  • Hagnast málsamfélög ráðandi tungumála á ráðandi stöðu sinni? Er það á kostnað minni málsamfélaga?
  • Hvernig laga minni málsamfélög sig að hnattvæðingu orðræðu listarinnar?
  • Hvernig gengur málsamfélögum sem eiga ekki langa listasögu eða listfræðisögu að baki að taka í notkun, þýða og flokka heiti og hugtök sem hafa ekki áður verið til í tungumáli þeirra?
  • Að hvaða leyti geta lítil málsamfélög lagt sitt af mörkum til alþjóðlegrar orðræðu í listum? Og að hvaða leyti gera þau það?
  • Hver er ábyrgð og áskorun þeirra sem þýða listasögu, fræðikenningar og/eða gagnrýni úr alþjóðlega ráðandi tungumáli yfir á tungumál á jaðri alþjóðasamfélagsins, og öfugt?
  • Er til list sem ekki er hægt að „þýða“ frá einni menningu til annarrar eða eins málsamfélags til annars, vegna staðbundinnar þekkingar eða takmarkana tungumálsins?
  • Hverjar eru fagurfræðilegar áskoranir við að þýða eitt listform yfir á annað?
  • Söguleg afrek við endursköpun á list, þýðingu á list eða umbreytingu á menningarlegum kerfum.
  • Hverjar eru afleiðingar þess (jákvæða og neikvæðar) að listamenn noti annað tungumál en móðurmál sitt í listsköpun sinni?
  • Hverjar eru afleiðingar þess (jákvæðar og neikvæðar) að listfræðingar eða aðrir atvinnumenn í listum skrifi, gefi út eða kenni á öðru tungumáli en móðurmáli sínu?
  • Að hvaða leyti gegna þeir sem fjalla um list hlutverki „þýðenda“ eða „túlkenda“ og hverjar eru takmarkanir þeirra?
  • Á hvaða hátt hefur aukinn útrás og þýðing á list haft áhrif á þjóðirnar sem taka við henni?
  • Geta málsamfélög á jaðri alþjóðasamfélagsins tekið þátt í hnattvæðingu listarinnar eða hnattvæðingu orðræðu listarinnar eða verður hún alltaf ákveðin og örlög hennar ráðin af þeim málsamfélögum sem eru ráðandi vegna stærðar sinnar og landfræðilegrar útbreiðslu?
  • Geta minni málsamfélög haft áhrif á ráðandi tungumál í listheiminum?
  • Hvaða áhrif hefur það á listina sjálfa að þýða hana yfir á ensku eða annað ráðandi tungumál, hverfur einhver merking með því?
Vinsamlegast sendið inn tillögu ykkar fyrir 1. mars 2010. Tilkynnt verður um þátttöku í síðasta lagi 15. mars 2010. Tillögur og spurningar sendist á netfangið [email protected] .

Stjórn ráðstefnunnar skipa:
  • Gauti Kristmansson, dósent í þýðingafræði við Háskóla Íslands.
  • Rúnar Helgi Vignisson, lektor í ritlist við íslensku- og menningardeild hugvísindasviðs Háskóla Íslands.
  • Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, aðjúnkt og fagstjóri í listfræði við myndlistardeild Listaháskóla Íslands.
  • Birna Bjarnadóttir, dósent og formaður íslenskudeildar Manitoba Háskólans.
  • Shauna Laurel Jones, sjálfstæður listfræðingur og rithöfundur.
  • Og að auki; Margrét Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri hugvísindastofnunnar Háskóla Íslands.
Vefsíða ráðstefnunnar:   http://conference.inotherwords.is

Aðalstjórnandi ráðstefnunnar og tengiliður:
  Shauna Laurel Jones
  Koma orðum að ehf. / In Other Words...
  Klapparstígur 28
  101 Reykjavík
  Iceland
  [email protected]
  tel.  +354 849 5162



Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]