23.7.2015 01:26:00
Ísnálin - The Icepick - tilnefningar 2015

Nú liggja fyrir tilnefningar til Ísnálarinnar (The IcePick) 2015 en þau verðlaun eru veitt fyrir bestu þýddu glæpasöguna á íslensku, þar sem saman fara góð þýðing og góð saga. Tilnefningar eru kynntar á afmælisdegi Raymonds Chandler, 23. júlí, en hann er höfundur einnar af þekktustu glæpasögum allra tíma þar sem sem ísnál er notuð sem morðvopn.

Í ár eru tilnefnd þessi verk:

Afturgangan (Gjenferd) eftir Jo Nesbø í þýðingu Bjarna Gunnarssonar. (Útg. JPV útgáfa)
Aðdáendur Jo Nesbø verða ekki sviknir af þessari bók sem hefur verið metsölubók víða um heim eins og fyrri bækur um andhetjuna Harry Hole, sem snýr núna heim til Noregs eftir sjálfskipaða útlegð í Hong Kong. Sögufléttan er hröð og fagmannlega spunnin og aldrei dauður punktur á rúmlega 500 blaðsíðum í úrvalsþýðingu Bjarna Gunnarssonar.

Alex (Alex) eftir Pierre Lemaitre í þýðingu Friðriks Rafnssonar. (Útg. JPV útgáfa)
Sagan hefst á því að hinni fögru Alex er rænt á götu og hennar bíður hræðilegur dauðdagi í vöruskemmu. Dvergvöxnum rannsóknarlögregluforingjanum Camille Verhæven og vöskum mönnum hans tekst að finna geymslustaðinn – en þá er þessi æsispennandi og hrollvekjandi glæpasaga rétt að hefjast. Friðrik Rafnsson miðlar vel fjörugum frásagnarstíl og sérvitrum persónum í prýðisgóðri þýðingu sinni.

Blóð í snjónum (Blod på snø) eftir Jo Nesbø í þýðingu Bjarna Gunnarssonar. (Útg. JPV útgáfa)
Óvenjuleg saga sögð frá sjónarhóli leigumorðingjans Ólafs opnar okkur sýn inn í harðneskjulegan heim glæpa og ofbeldis. Ljóðræn og yfirlætislaus frásögn Jo Nesbø af einmana og umkomulausum morðingja skilar sér einkar vel í vandaðri þýðingu Bjarna Gunnarssonar.

Konan í lestinni (The Girl on the Train) eftir Paulu Hawkins í þýðingu Bjarna Jónssonar. (Útg. Bjartur)
Drykkjusjúka sögukonan í lestinni spinnur sögur um fullkomin hjón sem hún sér út um lestargluggann en einn góðan veðurdag hverfur eiginkonan. Þegar Rachel blandar sér í málið og reynir að rifja upp atvik sem hún hefur orðið vitni að en gleymt í svartnætti ofdrykkju hefst atburðarás sem hún ræður ekkert við. Þýðing Bjarna Jónssonar er lipur og læsileg og kemur vel til skila innra lífi og vandamálum konu sem hefur enga stjórn á lífi sínu eða drykkjufíkn.

Syndlaus (I grunden utan skuld) eftir Vivecu Sten í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur. (Útg. Ugla)
Íslenskir lesendur eru farnir að kannast við Nóru Linde og vin hennar, lögreglumanninn Thomas Andreasson, í Sandhamn í sænska skerjagarðinum. Í þessari spennandi og vel skrifuðu sögu fléttast saman illvirki frá fyrri tíð og voðaverk nútíðar en auk þess gerast ýmis tíðindi í einkalífi Nóru og Thomasar. Örugg þýðing Elínar Guðmundsdóttur kemur vel til skila söguþræði og persónum og heldur vakandi áhuga lesandans allt til enda.

Þetta er annað árið sem verðlaunin verða veitt en að þeim standa Iceland Noir glæpasagnahátíðin, Hið íslenska glæpafélag og Bandalag þýðenda og túlka. Dómnefnd skipuðu Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Bergþórsdóttir, Magnea J. Matthíasdóttir, Quentin Bates og Ragnar Jónasson.



Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]