30.5.2013 10:32:00
Fjörugar umræður á aðalfundi

Aðalfundur Bandalags þýðenda og túlka var haldinn í Gunnarshúsi í gærkvöldi, miðvikudaginn 29. maí. Eftir skýrslu formanns um starfið á liðnu ári og samþykkt ársreikninga var gengið til stjórnarkjörs. Magnea J. Matthíasdóttir var kjörinn nýr formaður og einnig voru kosnir tveir nýir stjórnarmenn, Birna Imsland og Gísli Ásgeirsson. Aðrir í stjórn eru Petrína Rós Karlsdóttir, Jóhann R. Kristjánsson og Marion Lerner.

Fráfarandi formaður, Sölvi Björn Sigurðsson, skipaði Kristján Árnason heiðursfélaga Bandalags þýðenda og túlka. Kristján þarf varla að kynna fyrir landsmönnum enda hefur hann auðgað íslenska menningu með þýðingum sínum um árabil, t.d. verkum eftir Thomas Mann, Partick Süskind, Goethe, Aristófanes og Óvídus. Nú eru heiðursfélagar bandalagsins orðnir tveir, því Sigurður A. Magnússon var skipaður heiðursfélagi 2005.

Í lok fundar spruttu upp fjörugar umræður um aðstæður skjátextaþýðenda en talsverðar blikur eru á lofti á starfsvettvangi þeirra. Margt athyglisvert kom fram í umræðunum en á endanum var ákveðið að fela nýrri stjórn að fjalla um málið og boða til almenns félagsfundar ef svo ber undir.

Önnur og jákvæðari tíðindi bárust fundinum einnig úr heimi þýðinga, því fyrir skemmstu útskrifaðist fyrsti nemandinn með meistaragráðu í ráðstefnutúlkun frá Háskóla Íslands og annar meistaranemi í nytjaþýðingum er að ljúka námi. Það má telja gleðilegt að þýðinganám við Háskólann eflist og verður fjölbreyttara ár frá ári.

Nýkjörin stjórn þakkar fráfarandi formanni, Sölva Birni Sigurðssyni, og fráfarandi stjórnarmönnum, þeim Maríu Rán Guðjónsdóttur og Helga Má Barðasyni, fyrir störf þeirra í þágu Bandalags þýðenda og túlka og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.




Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]