18.6.2012 20:15:00
Ræða formanns dómnefndar Íslensku þýðingarverðlaunanna

haldin á Gljúfrasteini 23. apríl 2009

Forseti Íslands, þýðendur og aðrir viðstaddir.

Líta má á bókarkápu sem hurð; þegar þú opnar bókina uppljúkast dyr að heimi sem lýtur sínum eigin lögmálum og sem lesandi leggur þú af stað í ferðalag sem þegar vel tekst til færir þér nýja reynslu og nýja þekkingu, í viðbót við þá nautn sem það er í sjálfu sér að verja tíma sínum innan bókaspjaldanna í næði og njóta textans. Þegar um er að ræða erlendar bækur er reynslan oft þeim mun magnaðri þar sem að í þeim opnast okkur veröld sem getur verið bæði framandi og heillandi í senn og lesturinn getur fært okkur spönn nær því að skilja flókinn heim, á hátt sem nútímafjölmiðlun – þrátt fyrir alla sína tækni – er allsendis ófær um að gera.

Þetta á svo sannarlega við allar þær bækur sem tilnefndar eru til þýðingarverðlaunanna að þessu sinni; saman spanna þær veröld víða, margar aldir, mörg tungumál. Það hefur verið gaman að sökkva sér ofan í íslenskar þýðingar á erlendum bókmenntum undanfarna mánuði og við sem vorum í dómnefndinni, auk mín þær Sigríður Harðardóttir ritstjóri og Marta Guðrún Jóhannsdóttir bókmenntafræðingur, erum sammála um að mikil gróska sé á þessu sviði á Íslandi um þessar mundir og að við Íslendingar eigum orðið stóran hóp frábærra þýðenda. Valið var því ekki auðvelt – en við erum engu að síður mjög sáttar við niðurstöðuna. Rík ástæða er til að vekja athygli á vönduðu starfi þeirra þýðenda sem skara fram úr, ekki síst vegna þess að sjaldnast er þessi erfiða vinna metin að verðleikum og það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að list þýðandans er engu minni en list þess sem frumskapar á sínu eigin tungumáli.

Þeir þýðendur sem tilnefndir eru að þessu sinni eru (í stafrófsröð eftir nöfnum þýðenda):

Árni Óskarson fyrir skáldsöguna Nafn mitt er rauður eftir tyrkneska Nóbelshöfundinn Ohran Pamuk sem hann þýddi úr ensku. Nafn mitt er rauður er frábær skáldsaga, stór í sniðum, þar sem lýst er átökum í hinum íslamska heimi sem snúast um viðhorf til listsköpunar, auk þess sem þar er sagðar örlagasögur af einstaklingum. Sagan minnir á Þúsund og eina nótt í umfangi sínu og byggingu og er þýðing Árna Óskarsonar verkinu til mikils sóma.

Erla Erlendsdóttir og Kristín Guðrún Jónsdóttir fyrir Svo fagurgrænar og frjósamar. Smásögur frá Kúbu, Púertó Ríkó og Dóminíska Lýðveldinu sem þær þýddu úr spænsku. Í þessari bók kynnumst við bókmenntum þessara þriggja karabísku eyja og sögurnar spanna alla bókmenntasögu þjóðanna. Fróðlegir bókmenntasögulegir formálar eru í bókinni auk stuttra kynninga á hverjum höfundi. Þær Erla og Kristín Guðrún eiga mikinn heiður skilinn fyrir það hversu vel er vandað til verksins á öllum sviðum.

Guðrún Vilmundardóttir fyrir skáldsöguna Í þokunni eftir Philippe Claudel sem hún þýddi úr frönsku. Hér kynnumst við stríðshrjáðum einstaklingum í afar spennandi frásögn sem í grunninn er rannsókn á morði. Sagan reynist þó síður en svo einföld í roðinu heldur fjallar hún um glæpi af ýmsu tagi og fléttar saman marga þræði, einsog góðars sögur gera gjarnan. Íslenska þýðingin er einstaklega hljómfögur og vel unnin hjá Guðrúnu.

Hjörleifur Sveinbjörnsson fyrir Apakóngur á Silkiveginum. Sýnisbók kínverskrar frásagnarlistar frá fyrri öldum sem hann þýðir úr kínversku. Þessi sérlega fallegi prentgripur er ómetanlegt framlag til aukins skilnings Íslendinga á Kína, þessari fornu menningarþjóð sem um þessar mundir er að rísa upp sem eitt helsta stórveldi heims. Hjörleifur þýðir hér sögur frá 14. öld og fram á 4. áratug tuttugustu aldar á afar tilgerðalausa og vandaða íslensku, auk þess leiðir hann okkur um heim kínverskra bókmennta með fróðlegum inngangi og hnitmiðuðum kynningartextum framan við hverja sögu.

Sölvi Björn Sigurðsson fyrir ljóðabókina Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud sem hann þýðir úr frönsku. Þessi ljóðabálkur Rimbauds er með áhrifamestu verkum vestrænna bókmennta og Sölva Birni tekst afar vel í þýðingu sinni að koma til skila ástríðunni, æðinu og því brýna erindi sem höfundurinn vildi koma á framfæri – áður en hann snéri baki við heimi bókmennta aðeins 19 ára gamall. Þá skrifar Sölvi Björn fínan eftirmála við verkið sem opnar það enn fremur fyrir lesendum.

[Verðlaunin hlaut Hjörleifur Sveinbjörnsson.]

Margt fallegt má segja um Apakóng á Silkiveginum. Fyrst langar mig að vekja athygli á bókverkinu sem er með því fallegra sem sést hefur í íslenski bókaútgáfu lengi.

Þótt við í dómnefndinni séum ágætlega menntaðar og skiljum fjölda tungumála samanlagt skiljum við ekki kínversku. Við fórum því þá leið að fá kínverskumælandi mann til að skoða þýðingu Hjörleifs og ég vitna hér í brot af þeirri umsögn sem okkur barst frá honum:

„Upphaflegur texti verkanna á kínversku er knappur og málið fornt svo að það erfitt til aflestrar á frummálinu. Þýðing Hjörleifs er trú innihaldinu sem hann greinir frá með skýrum og auðlesnum hætti fremur en að herma knappan stíl frumtextans. Þannig getur lesandinn notið hinnar kínversku frásagnarlistar með svipuðum hætti og kínverskur almenningur kynnist þessum verkum í nýjum útgáfum á eða vinsælum sjónvarpsþáttum nú á dögum.“

Hjörleifur nútímavæðir því þýðingu sína og skiptir það áreiðanlega sköpum fyrir nútímalesendur. Elstu textarnir í bókinni eru frá 14. öld og um er að ræða hetjusögur þar sem valdabarátta, refsháttur og ríkisyfirráð koma við sögu. Sá yngsti frá 4. áratug tuttugustu aldar og þar er sagt frá fátækum manni sem staðið hefur í vonlítilli sjálfsstæðisbaráttu; Hjörleifur segir í formála: „Ef við viljum sjá líkindi með þessu og frásagnarbókmenntum okkar má segja, vitaskuld með skyldugum fyrirvörum, að bókin byrji á svipuðum nótum og Íslendingasögur og endi í Sjálfstæðu fólki.“  Þýðing Hjörleifs er á mjög vandaðri og tilgerðarlausri íslensku og virðist við lesturinn hafa verið fyrirhafnarlaus. Þó er okkur ljóst að það er fjarri lagi enda gerir þýðandi vel grein fyrir vinnulagi sínu í formála verksins. Eitt er það sem mig langar að benda sérstaklega á varðandi þýðingu Hjörleifs en það er hvernig orðaval hans þjónar oftlega þeim anda og boðskap sem textinn vill miðla – hann skapar jafnvel nýyrði í þessa þágu. Í smásögunni „Du tíundu og skartgripaskrínið“ er sagt frá ungri forkunnarfríðri og góðhjartaðri stúlku sem vegna bágra aðstæðna sinna í lífinu hefur neyðst til að vinna í vændishúsi um nokkurra ára skeið. Á vinnustað sínum kynnist hún ungum manni og þau fella hugi saman. Stúlkan, Du tíunda, eygir þarna möguleika á að snúa baki við fyrri starfa sínum og hefja nýtt og hamingjuríkt líf. Ungi maðurinn virðist sama sinnis en þegar á hólminn er komið reynist hann heigull og bregst ástkonu sinni á ögurstundu. Hjörleifur notar orðið „léttlætiskona“ fyrir stúlkuna, hann hafnar orðum eins og lauslætisdrós og hóra sem bera með sér afar neikvæðar aukamerkingar. Unga manninn kallar hann hins vegar „gjálífisgepill“ og þjóna þessi tvö orð fullkomlega hneigð sögunnar og boðskap.

Hjörleifur kemst þannig að orði að með þýðingum sínum á þessum sögum sé hann að kvitta fyrir nám sitt og fimm ára frjóa og afdrifaríka dvöl í Kína á árunum 1976 til 1981. Það hefur hann gert með eftirtektarverðum glæsibrag.

Að síðustu les ég hér dómnefndarálit þar sem reynt er að draga þetta saman:

Apakóngur á Silkiveginum. Sýnisbók kínverskrar frásagnarlistar frá fyrri öldum hefur að geyma brot úr nokkrum þekktustu bókmenntaverkum Kínverja frá fjórtándu öld fram til fjórða áratugar tuttugustu aldar. Hér er um að ræða brot úr stórum skáldsögum sem og smásögur og draugasögur. Þessi rit eru mikilvægur þáttur í kínverskri menningararfleifð sem kínverskur almenningur kannast almennt vel við. Frásagnir þeirra hafa mikil áhrif á kínversk viðhorf og menningu og margir nútímarithöfundar Kínverja hafa sótt til þeirra efnivið auk þess sem þær hafa lagt til efni í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta. Hjörleifur Sveinbjörnsson þýðir hinn forna texta jafnt sem yngri sögurnar á afar vandaða og aðgengilega íslensku. Texti Hjörleifs er aðdáanlega tilgerðarlaus og víða bregður fyrir skemmtilegum íslenskum nýyrðum sem styðja vel við þann anda og boðskap sem sögurnar leitast við að miðla. Auk þess að þýða sögurnar skrifar Hjörleifur fróðlegan formála að verkinu og hnitmiðaða kynningartexta á undan hverri sögu. Þannig auðveldar hann íslenskum nútímalesendum leiðina inn í heim kínverskar frásagnarlistar og opnar fyrir þeim framandi og heillandi veröld.

f.h. dómnefndar,
Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur.







Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]