17.7.2012 17:56:00
Íslensku þýðingaverðlaunin 2012
Bandalag þýðenda og túlka veitir Íslensku þýðingaverðlaunin 2012 við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini á Degi bókarinnar, 23. apríl kl. 14. Fimm þýðingar eru tilnefndar til verðlaunanna að þessu sinni og segir svo um þær í umsögn dómnefndar:
Andarsláttur eftir Hertu Müller. Þýðandi: Bjarni Jónsson. Útgefandi: Ormstunga.
„Vandasöm þýðing á gagnmerku skáldverki sem er skilað með sóma.“
Fásinna eftir Horacio Castellanos Moya. Þýðandi: Hermann Stefánsson. Útgefandi: Bjartur.
„Áhugavert bókmenntaverk þar sem þýðanda tekst með ágætum að fylgja stíl frumtextans í blæbrigðaríkum íslenskum texta.“
Regnskógabeltið raunamædda eftir Claude Lévi-Strauss. Þýðandi: Pétur Gunnarsson. Útgefandi: JPV útgáfa.
"Sígilt verk sem stendur eiginlega utan flokka, meira en fræðirit og annað en skáldskapur. Þýðingin er einkar læsileg og fangar afar vel flókið efni á kjarngóðri íslensku.“
Reisubók Gúllívers eftir Jonathan Swift. Þýðandi: Jón St. Kristjánsson. Útgefandi: Mál og menning.
„Myndarleg útgáfa á sígildu bókmenntaverki sem nýtur sín vel á gullaldar íslensku.“
Tunglið braust inn í húsið. Ljóð eftir marga höfunda. Þýðandi: Gyrðir Elíasson. Útgefandi: Uppheimar.
„Magnað stórvirki með ljóðlist úr ýmsum heimshornum. Heillandi og fagmannlega færð í íslenskan búning.“
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra afhendir verðlaunin. Athöfnin er öllum opin og verður boðið upp á léttar veitingar.



Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|