3.12.2012 00:58:00
Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna
Á fullveldisdaginn 1. desember var tilkynnt í áttunda sinn um tilnefningar Bandalags þýðenda og túlka til Íslensku þýðingaverðlaunanna. Fimm nýjar þýðingar hlutu tilnefningu en dómnefnd var skipuð af þeim Hermanni Stefánssyni, Móheiði Hlíf Geirlaugsdóttur og Jórunni Sigurðardóttur, sem var jafnframt formaður nefndarinnar. Hér má sjá hvaða bækur eru tilnefndar árið 2012 og rökstuðning dómnefndar fyrir valinu:
„Mikill fjöldi bóka er árlega gefinn út í íslenskri þýðingu og eru þær yfirleitt valdar til útgáfu af tvennum ástæðum: þær hafa í heimsbókmenntunum og/eða heimalandinu sýnt sig vera einstaklega áhugaverðar eða einstaklega vinsælar og söluvænlegar. Stundum fer þetta saman. Þessar þýðingar eru yfirleitt afar vandaður íslenskur texti án þess að valtað sé yfir stílbrigði frumtextans. Það má því kalla öruggt að miklu fleiri en fimm verk séu verðug tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna og það væri hrein lygi að halda því fram að valið hafi verið létt nú frekar en endranær. Með jafnmargar frábærar þýðingar að velja úr er ljóst að einnig er litið til annarra þátta þótt gæði þýðingar sé alltaf númer eitt. Við litum þannig líka til nokkurra atriða sem gera þýðingar svo þýðingarmiklar og lögðum áherslu á verk sem okkur þóttu sérlegur fengur að í frjóu samtali við íslenskt mál, hugsun og bókmenntir og sem færðu flestum íslenskum lesendum fjölbreytileika bókmennta heimsins á íslensku. Eftirfarandi verk var dómnefnd að endingu einhuga um að skyldu tilnefnd.
1) Allt er ást eftir Kristian Lundberg í þýðingu Þórdísar Gísladóttur, útgefandi Bjartur.
Sérstæð ljóðræn saga sem dansar á mörkum sjálfsævisögu og skáldskapar og gefur djúpa innsýn í mikilvægi ástarinnar og mannlegra samskipta með hvössum broddi samfélagsgagnrýni. Þýðingin skilar með ágætum hráum, ljóðrænum texta í knöppum stíl og með sterkri hrynjandi.
2) Ariasman eftir Tapio Koivukari í þýðingu Sigurðar Karlssonar, útgefandi Uppheimar.
Hér er á ferðinni heimildaskáldsaga um hrottafengin morð á spænskum hvalaföngurum við Íslandsstrendur árið 1615. Atburður sem hefur lent svolítið utan vega í sögulegri frásögn á Íslandi og er hér settur fram í skáldsagnarformi af finnskum rithöfundi. Íslenska þýðingin er feikilega vel gerð, fallega unnið með fornt mál og sértækt tungutak vinnubragða til sjós og lands sem miðlar vel tíma sögunnar og framandgervingu gestsaugans.
3) Hjaltlandsljóð; tvímála útgáfa safns ljóða eftir samtímaskáld frá Hjaltlandseyjum. Þýðandi Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, útgefandi Dimma.
Mjög athyglisvert safn ljóða eftir 11 nútímaskáld frá útkjálka líkum þeim sem við sjálf búum; ljóðin eru þýdd bæði úr ensku og mállýsku eyjaskeggja sem á rætur að rekja til norræns tungumáls sem er að mestu glatað. Ljóðmálið er einfalt og myndir ljóðanna miðla vel tengslum við sögu og náttúru; umbreytingum og rótum sem alltaf eru til staðar í hinum alltumlykjandi tæknilega nútíma. Þýðingin gefur þessum ljóðum auðugt, íslenskt mál af nærfærni og djúpum skilningi.
4) Sá hlær best ...! sagði pabbi eftir Gunnillu Bergström í þýðingu Sigrúnar Árnadóttur. Útgefandi, Mál og menning.
Einar Áskell hefur fylgt íslenskum börnum á öllum aldri í meira en 30 ár. Þar hefur verið fjallað um margvíslega hluti sem foreldrar og börn þurfa að takast á við af hjartahlýju, húmor og glöggskyggni á tíðarandann. Sú bók sem hér er tilnefnd er þar engin undantekning. Sigrún Árnadóttir hefur þýtt allar þessar bækur sem eru orðnar um 20 talsins. Þýðing þessarar bókar sem og hinna fyrri er framúrskarandi lipur, orðtakið fjölbreytilegt og húmorískt sem gerir að verkum að hvorki börn né fullorðnir verða leiðir á Einari Áskeli þrátt fyrir endurtekinn lestur kynslóðanna.
5) Svarti sauðurinn og aðrar fabúlur eftir Augusto Monterroso í þýðingu Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur. Útgefandi Bjartur.
Mikill fengur er að því að hafa á síðustu árum fengið að kynnast breiðara litrófi bókmennta rómönsku Ameríku á íslensku. Örsögur þessa heimshluta eru sérstakur kapítuli heimsbókmenntanna sem smátt og smátt hefur verið að koma fram í íslenskum þýðingum. Örsögur Augusto Monterroso, sem fæddist í Guatemala en var búsettur í Mexíkó, búa yfir öllum helstu einkennum örsagna Suður- og Mið Ameríku. Þær eru einstaklega marglaga og smellnar sem mun ekki áhlaupaverk að skila yfir á önnur tungumál. „Svarti sauðurinn“ og aðrar fabúlur samnefndrar bókar njóta sín hins vegar með ágætum í íslensku þýðingunni sem er unnin af mikilli nákvæmni en lætur sögurnar samt hljóma sem íslenskar væru og halda hita sem og sérkennilegri kaldhæðni uppruna síns.“
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|